Meðvituð ákvörðun Beckham-hjóna að klæða sig í stíl

David og Victoria Beckham eru samstíga hjón.
David og Victoria Beckham eru samstíga hjón. Skjáskot/Instagram

Tískugoðið og fyrrverandi kryddpían Victoria Beckham opinberaði það loksins að það hefði verið meðvituð ákvörðun hennar og Davids Beckhams, eiginmanns hennar, að koma fram í samstæðum eða áþekkum fötum hér á árum áður. Þeir sem fylgst hafa með hjónunum frá því þeim skaut upp á stjörnuhimininn ættu að vera vel kunnugir hliðstæðum fatastíl þeirra. 

„Þetta þótti okkur alveg bráðsnjöll hugmynd á sínum tíma,“ sagði Victoria í spjallþættinum The Tonight Show með Jimmy Fallon. „Þetta var góð hugmynd. Í alvöru!“ hélt hún áfram og reyndi þar með að sannfæra flissandi áhorfendur sem fylgdust með úr sjónvarpssal.

Victoria og David Beckham.
Victoria og David Beckham. AFP

Victoria útskýrði þetta uppátæki þeirra hjóna og hvernig það kom til en í fyrstu segir hún þetta hafa verið gert vegna vanþekkingar þeirra beggja á tísku. 

„Við vissum ekki neitt um tísku. Við vorum bara ótrúlega barnaleg og kunnum ekkert á þetta,“ viðurkenndi Victoria. „Við ákváðum að gera gott úr þessu og skemmtum okkur vel við það að finna samstæðan klæðnað. Ég vildi að ég hefði sama hugrekkið nú og þá því þetta var gaman.“


    

mbl.is