„Þarf ekki að vera fullkominn til þess að vera umhverfisvænn“

Jana Maren eigandi Hringekjunnar.
Jana Maren eigandi Hringekjunnar. Ljósmynd/Aðsend/Brynjar Snær

Jana Maren Óskarsdóttir á og rekur verslunina Hringekjuna ásamt eiginmanni sínum, Davíð Erni Jóhannssyni. Hjónin settu verslunina á fót í miðjum heimsfaraldri en Jana segir þann tíma hafa verið tilvalinn til að láta drauminn um að opna verslun með þessu sniði verða að veruleika. Hringekjan hefur hlotið mikilla vinsælda á meðal landsmanna þar sem neysluhegðunin hefur verið að breytast og aukin samfélagsvitund um minnkun á kolefnissporum gert vart við sig.

Hringekjan er hringrásarverslun með fatnað og fylgihluti þar sem aðal áherslan er lögð á að leigja rými til viðskiptavina þar sem þeir geta selt spjarir sínar til annarra og markvisst stuðlað að umhverfisvænni innkaupum og aukið umhverfisvitund.  

„Davíð er tölvunarfræðingur og hefur séð alfarið um allt sem snýr að tæknilegu hliðinni í rekstrinum en þar er af nægu að taka og margt spennandi í pípunum. Sjálf hef ég margra ára reynslu af rekstri tískuvöruverslana og höfum við hjónin sameinað krafta okkar í þessu umhverfisvæna, krefjandi en umfram allt skemmtilega verkefni sem Hringekjan er,“ segir Jana um samstarf þeirra hjóna í rekstrinum.

Davíð Örn og Jana Maren.
Davíð Örn og Jana Maren. Ljósmynd/Aðsend

Svo miklu meira en verslun

„Hringekjan býður einstaklingum upp á að geta bókað rými til þess að selja notaðan fatnað og fylgihluti úr sínum fataskápum. Þetta er mjög einfalt og fer allt í gegnum vefsíðuna okkar,“ útskýrir Jana Maren. „Þar bókar þú rými og verðleggur vörurnar þínar í gegnum tölvukerfið okkar. Við komuna erum við búin að útbúa merkispjöld og útvegum þér þjófavarnir, sem þú kemur fyrir á þínum vörum. Hverju rými fylgir lagerkassi sem við nýtum til áfyllinga á rýmið þitt út tímabilið og eru áfyllingar á lager velkomnar á meðan leigu stendur. Við sjáum svo um áfyllingar, viðhald og þrif á meðan leigutímabili stendur en í lok leigu tökum við svo niður þær vörur sem ekki seldust, tökum af þeim merkispjöld, þjófavarnir og komum fyrir í poka sem bíður þín að lokinni leigu,“ segir Jana um leiguferlið í Hringekjunni.

Jana Maren segir Hringekjuna þó ekki einungis vera verslun hringrásarhagkerfisins heldur fari þar fram margir skemmtilegir viðburðir á borð við tónleika á hálfsmánaðarfresti. Viðburðirnir eru margir hverjir teknir upp svo þeir sem sjá sér ekki fært um að mæta eiga möguleika á að hlusta á viðburðina í gegnum streymissíðu Hringekjunnar í gegnum Mix Cloud.com/hringekjan. Þannig verður enginn skilinn eftir útundan. 

„Við höfum fengið til liðs við okkur frábæra listamenn til þess að skemmta okkur og viðskiptavinum okkar. Einnig höfum við staðið fyrir listasýningum og verið í samstarfi með hönnuðum sem hafa verið að endurvinna textíl í nýjar vörur. Þessu munum við halda áfram og þróast, með umhverfið og sköpun að leiðarljósi,“ segir Jana.

Hringekjan varð til í miðjum heimsfaraldri.
Hringekjan varð til í miðjum heimsfaraldri. Ljósmynd/Aðsend

Ekki drukkna í drasli - búðu til verðmæti

Jana Maren segir það mjög mikilvægt að endurnýta. Það sé ekkert samasemmerki á milli þess að vera umhverfisvænn og fullkominn, listin sé að taka betri ákvarðanir dag frá degi og hafa umhverfisáhrifin bakvið eyrað. 

„Það þarf enginn að vera fullkominn til þess að vera umhverfisvænn. Allir ættu í það minnsta að hafa umhverfismál bakvið eyrað á tímum hamfarahlýnunar og ef fólk er ekki með hugann við umhverfismál núþegar, mun það óhjákvæmilega verða ofarlega í huga áður en langt um líður,“ segir Jana staðföst.

„Það er mjög mikilvægt að flokka rusl, því ef við flokkum úrgang þá endum við með endurvinnanlega hluti svo sem málma, textíl, plast og í kjölfarið verðmæti í stað þess að sitja uppi með rusl sem sem við eigum í erfiðleikum með að finna urðunarstaði fyrir,“ segir hún. Mitt heimili er til dæmis að drukkna í umbúðum og þá sérstaklega plasti. Ég geri ráð fyrir að staðan sé sambærileg á flestum heimilum en ég held að verslanir og framleiðendur geti gert meira í þessum málum ef viljinn er fyrir hendi og boðið neytendum upp á minni og umhverfisvænni umbúðir - við höfum oft eingöngu val á milli slæmra kosta þegar kemur að því að velja vörur út frá umbúðum,“ segir hún jafnframt, en umræðan um bót og betrun á  plast- og pappaumbúðum hefur lengi átt sér stað.

Jana Maren er einstaklega smekkleg en hún er dugleg að …
Jana Maren er einstaklega smekkleg en hún er dugleg að endurnýta hluti og fatnað. Ljósmynd/Aðsend/Arnór Halldórsson

Jana segir Íslendinga geta bætt neysluhegðun sína á marga vegu. Fyrsta skrefið sé að byrja einhvers staðar. Þá sé mikilvægt að hver og einn líti inn á við og skoði mynstrið sitt en fyrirtæki og stofnanir beri einnig mikla ábyrgð. 

„Íslendingar geta gert margt til þess að draga úr neyslu og til þess að velja vörur eftir umhverfissjónarmiðum, en ég held að boltinn sé hjá  verslunum og framleiðendum, sem mættu bæta sig í því að bjóða upp á umhverfisvænni útgáfur af sínum vörum, hvort sem það er í formi pakkninga eða varanna sjálfra. Það getur reynst erfitt að taka umhverfisvænar kaupákvarðanir ef vöruframboðið er ekki til staðar.“

Gamlir hlutir hljóta nýjan tilgang 

Með umhverfissjónarmið að vopni segir Jana það geta falið í sér margfaldan fjárhagslegan sparnað. Þá geti það einnig gert samvisku hvers og eins gott að huga að umhverfinu og minnka kolefnissporin með einum eða öðrum hætti. Jana hefur lagt það í vana sinn að endurnýta hluti og gefa þeim nýtt hlutverk.

„Hlutir hafa oft víðtækt notagildi. Ég geymi til dæmis alla gjafapoka sem ég fæ um jólin og nýti aftur næstu jól. Við vinkonurnar þræddum nytjamarkaði í fyrra og keyptum dúka og gömul efni sem við notuðum til að pakka inn jólagjöfum. Svo má líka nota gömul dagblöð og leika sér með allskonar skemmtilegar hugmyndir. Það er óþarfi að kaupa allt nýtt og það er líka kostnaðarsamt,“ segir Jana. 

Íslendingar virðast sækjast meira í hringrásarverslanir nú en á árum …
Íslendingar virðast sækjast meira í hringrásarverslanir nú en á árum áður. Skjáskot/Instagram

„Fatnaður sem þú ert orðin leið á eða hætt að nota getur gert svo mikið fyrir einhvern annan. Með því að bóka rými í Hringekjunni getur þú gert gott betur og grætt pening á sama tíma og þú hugar að umhverfismálum. En þegar kemur að sparnaði þá er endurnýting lang skynsamlegasti kosturinn, bæði þegar kemur að umhverfismálum og fjárhagslegum kostnaði.“

Nú eru jólin á næsta leiti og vill Jana Maren hvetja Íslendinga að huga að neyslunni sem hátíðarhöldunum fylgir. Segist hún jafnframt hafa fundið fyrir breyttri hugsun viðskiptavina Hringekjunnar sem eru í gjafahugleiðingum fyrir komandi jólahátíð. 

„Ég hef tekið eftir því uppá síðkastið að margir eru byrjaðir að kaupa í jólapakkann hjá okkur og allir eru svo glaðir að geta gert góð kaup og styðja undir endurnýtingu í leiðinni. Einnig stefnum við á að bjóða upp á gjafabréf til sölu í desember, svo það er aldrei að vita nema að gjafabréf fyrir kaupum á notuðum flíkum úr Hringekjunni rati í þinn pakka þessi jólin,“ segir Jana Maren að lokum. 


 


 

mbl.is