Kemur til dyranna eins og litskrúðugur trúður

Davíð Örn, eigandi Hringekjunnar, er litríkur karakter.
Davíð Örn, eigandi Hringekjunnar, er litríkur karakter. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Örn Jóhannsson á og rekur hringrásarverslunina Hringekjuna ásamt eiginkonu sinni, Jönu Maren Óskarsdóttur. Samhliða því starfar hann sem tæknistjóri hjá ABC Lights, þar sem hann þróar gróðurhúsalausnir en Davíð er tölvunarfræðingur að mennt. 

Davíð er ansi litríkur karakter og sést það vel á fatastíl hans. Hann segist hafa gaman að því að klæða sig upp og er óhræddur við að skera sig úr fjöldanum. 

„Ég get ekki beint sagt að ég fylgi einhverjum sérstökum straumum,“ segir Davíð. „Ég hef gaman af því að klæða mig og kalla það að búa til búninga fyrir ýmis tilefni. Búningarnir fara ýmist eftir tilefni, aðstæðum, líðan, veðri eða hverju sem er. Maður reynir að moða einhverja skemmtilega búninga úr því sem maður hefur grafið upp hingað og þangað,“ segir hann og lítur á fatavalið sem eins konar búningahönnun fyrir leiksvið lífsins. 

Davíð er sérlega töff týpa sem sker sig úr fjöldanum, …
Davíð er sérlega töff týpa sem sker sig úr fjöldanum, enda nennir hann ekki að taka þátt í hjarðhegun tískunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað er tíska í þínum huga?
„Tíska er í stórum dráttum hjarðhegðun að mínu mati þar sem allir keppast um að elta náungann,“ segir Davíð. „Tíska fyrir mér persónulega er tækifæri til að losna við staðalímyndir og koma til dyranna eins og litríkur trúður ef og þegar það á við,“ segir hann en litríkur fatnaður grípur alltaf auga hans. „Með tísku hefur þú tækifæri til að tjá þig eins og þér líður hverju sinni. Því fleiri litir, því betra,“ segir hann og sér möguleika í því að glæða lífinu lit fjölskrúðugleikanum.

Davíð segir mikinn mun vera á úrvali þegar litið er til herra- og dömufatnaðar. Minna framboð af herrafatnaði í verslunum sést oft og iðulega á umfangi herradeildar, annars vegar og dömudeildar, hins vegar. 

„Þetta litla úrval kemur oft niður á litaglöðum einstaklingi eins og mér,“ segir Davíð sem verslar fötin sín helst í hringrásarverslunum eða á nytjamörkuðum. „Ég veit ekki hversu oft ég hef gengið upp að geggjaðri litríkri flík og komast svo að því að þetta er dömuflík og ekki til í minni stærð,“ útskýrir Davíð. „Oft er sagt við mig: „þetta er eingöngu til í kvennastærðum“ á meðan ég klæði mig í litríku flíkina sem ekki er ætluð því kyni sem ég tilheyri. Hugsanlega er flíkin örlítið of snubbótt á mig, en hverjum er ekki sama?“ segir Davíð og vill eyða burt staðalímyndum kynjanna þegar kemur að fatnaði.

Staðalímyndir karla og kvenna eiga ekki að vera við lýði …
Staðalímyndir karla og kvenna eiga ekki að vera við lýði þegar kemur að fötum að mati Davíðs. Bágborið úrval á herrafatnaði kemur oft niður á honum sem litaglöðum manni. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð segist í flestum tilfellum ekki vita hvernig hann eigi að klæða sig, hann fari ekki eftir neinum reglum varðandi fataval. Hann segist vera duglegur að endurnýta gömul föt og skapa ný útlit með eldri textíl.

„Ég veit sjaldnast hvernig ég á að vera. En þá er gott að vera með endurnýtingarplan og endurnýta gamla búninga. Ég á það til að bæta inn í og hliðra til eftir þörfum. En ég klæði mig langoftast eftir veðri vegna þess að ég hjóla eða labba flest. En líður best í litríkum og dansvænum fötum,“ segir hann.

Karrý gulir kúluhattar eru Davíð að skapi.
Karrý gulir kúluhattar eru Davíð að skapi. mbl.is/Árni Sæberg

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„Ef ég ætti að reyna að lýsa því sjálfur þá er það frekar afslappaður klæðaburður, bolur, gallaskyrta og gallabuxur en alltaf í lit. Ég tók ástfóstri við lopapeysuna sem ég fékk í jólagjöf frá konunni í veðrinu sem er búið að vera hér frá áramótum. Lopapeysan pöruð við geggjaðan „vintage bomber“ jakka hafa komið mér langt í vetur.“

Það mætti segja að karrý gulur litur sé einkennislitur Davíðs. Hann segist ekki geta gert upp á milli lita og að hann eigi engan ákveðinn uppáhalds lit, hins vegar segir fólkið í kringum Davíð að karrý gulur lýsi honum best enda sé það liturinn sem hann fellur oftast fyrir.

,,Sokkarnir skapa manninn,
,,Sokkarnir skapa manninn," segir Davíð en það er hans helsta mantra. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrir mér eru litir í dagsdaglegu umhverfi mjög mikilvægir hvort sem þeir eru í fatnaði, arkitektúr eða hvaða hönnun sem er. Litir hafa bein áhrif á líðan okkar,“ segir Davíð. „Karrý gulur grípur mig oftast og ég fell stundum kylliflatur fyrir gulum kúluhöttum,“ segir hann en hatta og höfuðföt notar hann oftast til að toppa heildarútlit sitt við sérstök tilefni eins og veislur.

Þá segist Davíð eiga ógrynni af litríkum sokkum sem hann notar einnig til að poppa upp dressin sín. Bestu sokkar sem Davíð hefur gengið í eru sokkar sem unnir eru úr sjávarplasti og eru fáanlegir í versluninni Hringekjunni.

„Sokkar gera manninn sagði einhver snillingur. Ég elska litríka sokka.“

Pilot-samfestingurinn sem Davíð eignaðist nýverið eru hans bestu fatakaup til …
Pilot-samfestingurinn sem Davíð eignaðist nýverið eru hans bestu fatakaup til þessa. Dansvænn og geggjaður galli. mbl.is/Árni Sæberg

Verstu fatakaupin?
„Flest allt sem ég keypti í kringum 2000. Ég get ómögulega lýst því hversu illa mér leið í flest öllu sem ég keypti mér í kringum þann tíma. Polyester og kaldi svitinn sem fylgdi því eru mínar allra verstu minningar aldamótanna.“

Bestu fatakaupin?
„Ég hef gert alveg töluvert af góðum kaupum undanfarið í Hringekjunni en það verður að segjast að það besta hingað til er Pilot samfestingur sem ég keypti síðasta sumar. Ég virðist hafa misst af upplýsingunum um það hversu fáránlega þægilegt það er að dansa í samfesting. Það er það gott að mér líður eins og samfestingum hafi verið vísvitandi haldið frá mér í gegnum tíðina.“

Við fín tilefni skellir Davíð oftast hatti á höfuðið á …
Við fín tilefni skellir Davíð oftast hatti á höfuðið á sér til að poppa upp heildarútlitið. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur konan þín áhrif á það hverju þú klæðist?
„Hún hefur að sjálfsögðu mikil áhrif og þá sérstaklega með hjálpsemi í minn garð,“ viðurkennir Davíð. „Ég reyni að draga línuna sjálfur þó hún virðist oftast enda sem punktur en ekki lína.“

Merkjavörur hafa ekki mikið að segja fyrir Davíð. Hann velur fatnað út frá allt öðrum ástæðum en merkjum þeirra. Hann tengir merkjafatnað oft við fortíðarþrá í dag en þegar Davíð var ungur að árum sóttist hann í fatnað sem aðal hjólabrettagæjarnir klæddust í þá daga.

„Ég upplifi nostalgíska tengingu til fatamerkja. Ég hugsa til unglingsáranna þar sem Stussy, Burton, Vans og álíka skopparamerki voru inn,“ minnist Davíð. „Umfram það á ég ekkert sérstakt merki sem ég held upp á í dag. „Ég kýs „vintage“ eða „second hand“ fatnað umfram aðrar vegna fjölbreytileikans, gæða og umfram allt umhverfissjónarmiða.“

Litir og mynstur falla Davíð í geð. Hann klæðist flottum …
Litir og mynstur falla Davíð í geð. Hann klæðist flottum bomber- og leðurjökkum við öll tilefni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál