Að fara mýkri höndum um lífsreynsluna

Ísak Freyr Helgason farðaði Klöru Thorarensen með vörum frá YSL.
Ísak Freyr Helgason farðaði Klöru Thorarensen með vörum frá YSL. Ljósmynd/Samsett

Listin að farða sig fallega getur verið flókin. Ekki síst þegar árin færast yfir. Þegar fólk er komið á ákveðinn aldur er ekki hægt, þrátt fyrir ítrekaðan brotavilja, að „meika“ bara yfir lífsreynsluna. Það er hinsvegar hægt að tileinka sér ákveðnar aðferðir til þess að fara mýkri höndum um lífsreynsluna.

Það var þéttsetinn bekkurinn þegar förðunarmeistarinn Ísak Freyr Helgason hélt förðunarnámskeið í MakUp Studio Hörpu Kára. Fyrir þá sem ekki þekkja Ísak þá er hann einn af fremstu förðunarmeisturum landsins. Hann hefur starfað erlendis í meira en áratug og er gjarnan kallaður út þegar heimsfræg stórstirni þurfa að ganga rauða dregilinn á heimsviðburðum. Nú eða farða fyrir heimsfrægar erlendar sjónvarpsþáttaraðir. Sú þrautaganga, að klæða sig upp í spariföt og láta heimspressuna mynda sig, er filterslaus og í raun stjórnlaus. Sá sem gengur rauða dregilinn stýrir því ekki hver tekur hvaða myndir og hvar þær eru birtar. Það er þess vegna sem stórstjörnur úti í heimi kjósa að fá bestu förðunarmeistara heims til að farða sig. Fæstir tengja kannski við þessa upplifun en það er hinsvegar gaman fyrir venjulegar konur að fá innsýn í þennan heim. Það er heldur ekki verra að læra nýjar aðferðir til þess að glóa eins og demantur á meðan lægðirnar mokast yfir landið og geta leikið eftir trixin hans Ísaks heima á köldu baðgólfinu.

Hér er hann að farða augun.
Hér er hann að farða augun. Ljósmynd/Kári Sverriss

Konur sem eru komnar yfir fertugt tengja fæstar við það sem ungstirni kenna á TikTok. Það er vegna þess að andlit með lífsreynslu þarfnast öðruvísi meðferðar en ungt og reynslulaust andlit.

Eitt gott dæmi er hyljarabylgjan sem hefur farið eins og kórónuveiran yfir heimsbyggðina. Hyljarar eru örugglega góðir fyrir einhverja einstaklinga en þegar húðin er farin að skreppa örlítið saman og mynda fínar línur getur hyljari virkað eins og endurskinsmerki. Endurskinsmerki sem lýsir upp hrukkurnar og gerir þær meira áberandi. Það eru kannski einhverjar lifandi verur sem vilja vera með sjálflýsandi hrukkur undir augunum en ég hef því miður ekki hitt neina slíka á lífsleiðinni. Ég veit ekki hvað oft ég hef upplifað það að setja á mig hyljara og líta svo óvart í spegil um miðjan dag og þá situr hyljarinn í hrukkunum og línurnar eins og endurskinsmerki. Það var mikill léttir þegar Ísak upplýsti það á námskeiðinu að hann notaði bara hyljara ef það þyrfti nauðsynlega. Hann væri góður ef fólk væri með fjólubláa bauga undir augunum og þá þyrfti hyljarinn að vera hlýtóna til þess að gera gagn. Ísak farðar svo yfir hyljarann svo hann sjáist sem minnst. Hann notar hann sem viðgerðarefni ef það þarf – ekki bara vegna þess að allir á TikTok eru með hann í andlitinu.

Harpa Káradóttir, Klara Thorarensen og Ísak Freyr Helgason.
Harpa Káradóttir, Klara Thorarensen og Ísak Freyr Helgason. Ljósmynd/Kári Sverriss

Eins og lítill bústinn pandabjörn!

Í gegnum tíðina hef ég gert ótrúlega mörg mistök þegar kemur að förðun. Þessi mistök eru mjög sýnileg á eldri ljósmyndum sem finnast í minningakössum fortíðarinnar. Hver man ekki eftir því þegar hvítir augnskuggar voru í tísku? Þetta var um svipað leyti og skemmtistaðurinn Tunglið þótti töff og föt úr plastefni voru tískudjásn, ekki búningur umhverfissóða. Á þessum tíma var hvíti augnskugginn móðins eins og fyrr segir en einhverjir, þar á meðal ég, vissu aldrei almennilega hvar augnskugginn átti að byrja og hvar hann ætti að enda. Hann var því bara borinn á allt augnlokið og alveg upp að augabrúnum. Þetta var áður en ég lærði að það væri ágæt hugmynd að plokka augabrúnirnar örlítið. Þetta ungmenni sem þarna var á ferð var svolítið eins og lítill bústinn pandabjörn með samvaxnar augabrúnir. Hann hefði bara átt að vera að leika sér úti í skógi – ekki vera að reyna að finna sé framtíðarmaka klæddur glærum plastjakka.

Hér er Ísak Freyr að blanda saman farða út í …
Hér er Ísak Freyr að blanda saman farða út í dagkrem til að fá náttúrulegri áferð. Ljósmynd/Kári Sverriss

Síðan þarna um árið hef ég alltaf verið svolítið týnd þegar kemur að því að setja augnskugga. Einhvern veginn enda ég alltaf svolítið eins og litli bústni pandabjörninn. Veit aldrei hvar augnskugginn á að enda. Það kom mér því mjög mikið á óvart þegar Ísak kenndi mér og fullum sal af konum að bera á mig þrjá augnskugga án þess að verða eins og gangandi sjónmengunarslys.

Á námskeiðinu var hann með tvær fyrirsætur, Lilju Pálmadóttur og Klöru Thorarensen. Þegar hann farðaði Klöru lagði hann áherslu á húðina og áferðina á henni. Hann sagði að það skipti öllu máli að húðin hefði góðan raka til þess að farðinn sæti rétt á andlitinu. Hann bar rakakrem á andlitið með flötum förðunarbursta. Svo tók hann farðann Touche Éclat frá YSL, sem er fljótandi farði, og blandaði honum saman við örlítið af dagkreminu. Í þetta notaði hann sama burstann og hann hafði notað til að bera dagkremið á andlitið. Hann gætti þess að bera eins lítið magn á andlitið og hann komst upp með þannig að áferðin væri sem náttúrulegust. Hann bar til dæmis ekki mikinn farða á ennið og sagði að það þyrfti ekki að fara jafnmikið magn á allt andlitið.

Hann notaði augnskuggapallettu á augun og í kinnarnar.
Hann notaði augnskuggapallettu á augun og í kinnarnar. Ljósmynd/Kári Sverriss

Andlit eða augu?

Margir förðunarmeistarar segja að þeir byrji alltaf á því að farða augun og fari svo að vinna í húðinni. Ísak byrjaði á húðinni þegar hann farðaði Klöru og Lilju. Hann sagði að sér þætti oft betra að byrja á húðinni því þá sæi hann betur hvernig hann vildi ramma augnförðunina inn í heildarmyndina þannig að manneskjan liti sem best út. Hann notaði ekki primer á augnlokið heldur setti vatnsheldan blýant frá YSL meðfram augnlokinu, upp við augnhárin, og dreifði úr honum yfir augnlokið – ekki upp á augnbeinið. Þegar hann var búinn að því setti hann ljósan augnskugga úr augnskuggapallettunni yfir augnlokið og tók svo dekkri lit og vann litina saman. Til þess að fullkomna útlitið notaði hann hreinan förðunarbursta þannig að hann gæti lagað jafnóðum með honum. Svo setti hann vatnshelda blýantinn í efri vatnslínuna til þess að búa til meiri svip án þess að minnka augun. Þetta kom ákaflega vel út enda auðvelt í framkvæmd. Til þess að klára augnsvæðið setti hann maskara sem þykkir og lengir augnhárin.

Ljósmynd/Kári Sverriss

Varir með mjúkri línu!

Í dag er móðins að vera með varalit en varalitalínan á alls ekki að vera áberandi eða of skörp. Til þess að fá þetta afslappaða útlit blandaði Ísak varalitinn með vaselíni og bar á með förðunarbursta. Markmið námskeiðsins var að kenna konum að nota fáar en góðar vörur á andlitið. Hann notaði því tvo liti úr augnskuggapallettunni í kinnarnar til þess að fá meiri svip. Engar skarpar skyggingar, áferð sem kallaði fram fegurð og mýkt. Þetta er svolítið eins og með haustlægðirnar og veturinn. Það þýðir ekkert að mæta sér með hörku og refsingu – við þurfum að klappa okkur á bakið og sýna okkur sjálfum hlýju og mildi. Svo smitast hlýjan yfir á alla í kringum okkur og þá verður skemmtilegra að draga andann í öllu vonda veðrinu.

Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Ljósmynd/Kári Sverriss
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál