Haukur Páll: Sólatækling í hnéhæð

Haukur Páll Sigurðsson var óhress með frammistöðu Vals í seinni …
Haukur Páll Sigurðsson var óhress með frammistöðu Vals í seinni hálfleiknum gegn FH í dag. mbl.is/Ómar

„Fyrri hálfleikur var fínn en þetta annað mark þeirra virtist drepa okkur. Það er erfitt að segja hvað skeði,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals eftir 4:1-tapið gegn FH í Pepsi-deildinni í dag.

Atli Guðnason var maður leiksins, skoraði þrennu og lagði upp eitt mark fyrir FH-inga, og virtust varnarmenn Vals ekkert ráða við hann.

„Hann var góður og ég réði heldur ekki við hann. Ég átti alla vega að dekka hann í horninu þegar annað mark þeirra kom. Hann var góður í seinni hálfleik og kom þeim inn í leikinn en ég átti að gera betur,“ sagði Haukur.

Valsmenn vildu að Steven Lennon fengi rauða spjaldið í fyrri hálfleik fyrir að fara með takkana á undan sér í annað hné Ians Williamson sem fór meiddur af leikvelli. Garðar Örn Hinriksson dómari lét nægja að dæma aukaspyrnu.

„Þetta var sólatækling í hnéhæð. Ef það er ekki rautt spjald þá veit ég ekki hvað. Dómarinn gaf þá skýringu að báðir hefðu reynt við boltann en það skiptir ekki máli. Ef maður er til dæmis aftasti maður og reynir við boltann en tekur manninn þá er það rautt spjald,“ sagði Haukur.

„Þetta var gjörsamlega fáránlegt og hann lyfti ekki einu sinni gulu spjaldi. Af hverju var hann þá að dæma aukaspyrnu? Dómarinn tapaði ekki leiknum fyrir okkur en þetta var út í hött,“ bætti Haukur við.

Þrátt fyrir tapið er Valur enn tveimur stigum á eftir Víkingi R. í baráttunni um Evrópusæti fyrir lokaumferðina. Þá sækja Valsmenn Blika heim en Víkingar fara til Keflavíkur.

„Það er jákvætt [að Víkingar hafi tapað] en við þurfum að treysta á aðra, og svo sannarlega á okkur sjálfa líka,“ sagði Haukur.

mbl.is

Bloggað um fréttina