Óskabyrjun Stjörnunnar dugði ekki gegn Celtic

Ólafur Karl Finsen í höggi við varnarmann Celtic en Ólafur …
Ólafur Karl Finsen í höggi við varnarmann Celtic en Ólafur kom Stjörnunni í 1:0. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan er úr leik í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu þrátt fyrir hetjulega baráttu gegn skoska meistaraliðinu Celtic þegar þau mættust í síðari leik liðanna í Garðabæ í kvöld. Skoska stórveldið fór með 4:1 sigur af hólmi og vann einvígið samanlagt 6:1.

Strax á sjöundu mínútu ærðist hreinilega allt í stúkunni þegar Ólafur Karl Finsen kom Stjörnunni yfir. Eftir hraða sókn kom Jeppe Hansen boltanum á Ólaf Karl sem sneri af sér varnarmann og kláraði færið af gríðarlegri yfirvegun framhjá skoska landsliðsmarkverðunum Craig Gordon hjá Celtic.

Það voru eflaust margir sem voru farnir að láta sig dreyma eftir þessa óskabyrjun, en Celtic réði ferðinni eftir markið og pressaði stíft. Stjarnan slapp oft með skrekkinn og meðal annars var mark dæmt af þeim skosku eftir rúmlega tuttugu mínútur.

Eftir rúmlega hálftíma leik kom hins vegar jöfnunarmarkið. Stefan Johansen tók þá hornspyrnu á nærstöngina, Nir Biton stökk hæst allra í teignum og skallaði boltann í markið. Staðan 1:1 og þannig var hún í hálfleik, sem þýddi að nú þurfti Stjarnan þrjú mörk til að komast áfram.

Strax á 49. mínútu gerði Celtic hins vegar endanlega út um einvígið þegar bakvörðurinn Charlie Mulgrew skoraði. Það virtist ekkert í gangi hjá þeim skosku, Mulgrew fékk boltann rétt utan teigs og lét vaða meðfram jörðinni og boltinn endaði í netinu.

Leikurinn datt svolítið niður eftir markið enda úrslitin ráðin. Stjarnan hélt þó uppi baráttunni og skapaði sér nokkur færi, en þau voru lítt hættuleg. Annað mark var dæmt af Celtic á 68. mínútu þegar Nir Biton kom boltanum í markið á ný, en var réttilega flaggaður rangstæður.

Stjarnan reyndi að bæta í sóknina til að jafna metin en það var Celtic sem hélt áfram að sækja af krafti. Það skilaði þeim marki tveimur mínútum fyrir leikslok þegar varamaðurinn Leigh Griffiths skilaði boltanum í netið eftir sendingu Gary Mackay-Steven.

Þegar leikurinn var að fjara út skoraði svo Stefan Johansen fjórða mark Celtic, aftur eftir undirbúning Mackay-Steven. Lokatölur 4:1 fyrir Celtic og vann skoska stórveldið einvígið því samanlagt 6:1.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en viðbrögð úr herbúðum liðanna birtast hér á vefnum síðar í kvöld. Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Stjarnan 1:4 Celtic opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert