KR úr leik eftir martraðarbyrjun

Hólmar Örn Eyjólfsson og Hólmbert Aron Friðjónsson voru í eldlínunni ...
Hólmar Örn Eyjólfsson og Hólmbert Aron Friðjónsson voru í eldlínunni í Þrándheimi. Styrmir Kári

KR er úr leik í 2. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA eftir 3:0 tap fyrir Rosenborg frá Noregi þegar liðin mættust í síðari leik einvígisins í Þrándheimi í kvöld. Rosenborg kemst áfram í þriðju umferð samanlagt 4:0.

KR-ingar gerðu sér vonir um að stríða þeim norsku eftir góða frammistöðu í fyrri leiknum, en sú von var fljót að hverfa. Rosenborg komst yfir strax á fjórðu mínútu og voru komnir í 2:0 eftir sjö mínútna leik. Mörkin skoruðu Fredrik Midtsjö og Pål Andre Helland með skoti utan teigs. Sannkölluð martröð fyrir KR og einvígið búið.

Ekki batnaði ástandið á 18. mínútu þegar Alexander Söderlund, framherjinn sem spilaði með FH fyrir nokkrum árum, skoraði þriðja markið úr teignum. Á þessum tímapunkti þurfti KR því að skora fjögur mörk til þess að komast áfram, og ljóst að þeir þyrftu að reyna að halda haus það sem eftir lifði leiks. Staðan 3:0 í hálfleik.

KR gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik í von um að hrista upp í hlutunum en þeim gekk ekkert betur að skapa sér færi. Rosenborg hafði mikla yfirburði eins og í fyrri hálfleik og Stefán Logi Magnússon þurfti að vera vel vakandi í marki KR-inga.

Hólmar Örn Eyjólfsson var að vanda í vörninni hjá Rosenborg og hann gerði sig líklegan í tvígang eftir hornspyrnur undir lok leiksins, en Stefán Logi sá við honum í bæði skiptin. Leikurinn fjaraði að lokum út, lokatölur 3:0 og Rosenborg fer áfram samanlagt 4:0. Hólmar og félagar mæta Debreceni frá Ungverjalandi í 3. umferð.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Rosenborg 3:0 KR opna loka
90. mín. Aron Bjarki Jósepsson (KR) á skalla sem fer framhjá Eftir hornspyrnuna.
mbl.is