Fjögur á hálftíma í Skopje

Íslensku leikmennirnir á vellinum rétt fyrir leik.
Íslensku leikmennirnir á vellinum rétt fyrir leik. Ljósmynd/KSÍ

Ísland vann afar öruggan sigur á Makedóníu, 4:0, þegar liðin mættust í undankeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Skopje í dag.

Ísland er þá með 6 stig eftir fyrstu tvo leikina og markatöluna 6:0 en þetta var fyrsti leikur Makedóníu í riðlinum. Íslenska liðið fer nú til Slóveníu og mætir heimakonum þar á mánudaginn.

Leikið var við afar erfiðar aðstæður í Skopje en völlurinn var rennandi blautur eftir miklar rigningar og erfitt að koma boltanum á milli manna. Íslenska liðið lék hinsvegar af miklum krafti frá byrjun og var komið í 3:0 eftir 17 mínútur.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fyrsta markið á 9. mínútu með viðstöðulausu skoti úr vítateignum eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur frá vinstri.

Glódís Perla Viggósdóttir kom Íslandi í 2:0 með föstu skoti af 20 metra færi eftir að boltinn hrökk út til hennar eftir hornspyrnu.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði þriðja markið á 17. mínútu með viðstöðulausu skoti af markteig eftir sendingu Söndru Maríu Jessen frá vinstri.

Margrét Lára skoraði sitt annað mark á 30. mínútu eftir sendingu Fanndísar Friðriksdóttur í gegnum miðja vörn Makedóníu og staðan var 4:0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik gekk ekkert að bæta við mörkum þrátt fyrir nokkur góð færi. Harpa, Dagný Brynjarsdóttir og Margrét Lára fengu þau bestu en mörkin urðu ekki fleiri. Þægilegur sigur Íslands var þó aldrei í hinni minnstu hættu.

Makedónía 0:4 Ísland opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert