Bragðdauft í Kópavogi

Valsarinn Bjarni Ólafur Eiríksson með boltann í leiknum í kvöld. …
Valsarinn Bjarni Ólafur Eiríksson með boltann í leiknum í kvöld. Arnór Sveinn Aðalsteinsson, fyrirliði Blika, reynir að stöðva hann. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik og Valur gerðu markalaust jafntefli í 8. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik situr því áfram í þriðja sæti deildarinnar og Valsmenn eru áfram í sjöunda sætinu.

Fyrri hálfleikur var afskaplega tíðindalítill. Kristinn Ingi Halldórsson fékk besta færi hálfleiksins en skallaði yfir í dauðafæri. Blikar áttu nokkur þokkaleg langskot en voru aldrei líklegir til að skora.

Fyrirliði Valsmanna, Haukur Páll Sigurðsson þurfti að fara af velli á 35. mínútu, meiddur á nára og  í hans stað kom Einar Karl Ingvarsson.  Staðan að loknum  45 mínútum var 0:0 og áhorfendur á Kópavogsvelli ekki að fá mikið fyrir peninginn sinn.

Seinni hálfleikur bauð upp á meira af því sama, töluverða baráttu en nánast engin færi. Ellert Hreinsson átti gott skot  sem Anton Ari varði vel og hinumegin varði Gunnleifur góðan skalla frá Bjarna Ólafi Eiríkssyni.

Leikurinn hresstist mikið síðustu 10 mínúturnar og þá átti Nikolaj Hansen besta færi leiksins en Daninn skallaði í stöngina í dauðafæri.

Lokatölur 0:0 í leik sem fer seint í sögubækurnar.

Bæði þessi lið geta miklu betur, enda prýðilegir leikmenn innan þeirra vébanda. Eitthvað taktleysi var þó áberandi í sóknarleiknum en reyndar verður að hrósa varnarmönnum beggja liða fyrir sinn þátt í leiknum.

Breiðablik 0:0 Valur opna loka
90. mín. Rolf Toft (Valur) á skot sem er varið Gott skot sem Gunnleifur ver vel. Þetta er allt að hressast á lokakaflanum!
mbl.is