„Höfum fengið rauð spjöld fyrir minna“

Arnar Grétarsson og Atli Sigurjónsson
Arnar Grétarsson og Atli Sigurjónsson Eva Björk Ægisdóttir

„Mér fannst við stjórna leiknum frá A til Ö. Við sköpuðum mikið af færum og það eina sem ég er ósáttur með er hvernig við vorum að nýta færin, sérstaklega eftir að við komumst í 2:0. Við vildum leyfa þeim að spila út, setja pressu á þá og reyna að vinna boltann þar og ég held að það hafi gengið nokkuð vel,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2:0 sigur gegn Þrótti í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á kópavogsvelli í kvöld. 

„Þeir áttu í rauninni ekkert í leikum og ekkert skilið. Við höfum spilað fleiri svona leiki á heimavelli þar sem við erum meira með boltann, sköpum fullt af færum en erum samt ekki að fá neitt úr krafsinu þannig að ég er sáttur með að hafa skorað tvö mörk og haldið hreinu.“

Breiðablik var ráðandi í fyrri hálfleik og Þróttur átti í mestu vandræðum með að koma boltanum yfir miðvallarlínuna. Blaðamanni þótti Þróttarar komast inn í leikinn í seinni hálfleik en Arnar tók ekki undir. 

„Ég tók ekki eftir því. Við vorum meira með boltann allan tíman. Það getur verið að þeir hafi komist hærra upp völlinn heldur en í fyrri hálfleik en mér fannst við ráða ferðinni frá algjörlega. Þeir fá eitt færi sem kemur upp úr horni, þegar Björgvin skallaði. Það var eina færið þeirra í leiknum, svona hálfséns. Færin sem við vorum að klúðra voru á öðrum skala og ég hefði orðið dýrvitlaus ef ég hefði staðið hér með eitt stig eða minna.“

Þróttarar fóru harkalega í Blika, sérstaklega í seinni hálfleik. Mörgum var farið að þykja nóg komið en enginn Þróttari fór af velli. Arnar var vill sjá meira samræmi milli leikja. 

„Ég held að við höfum fengið rauð spjöld fyrir minna. Í leikjunum fyrri leikujm gegn Þrótti og leiknum gegn Víkingi fengum við tvö gul spjöld fyrir minna. Þetta er línan hjá dómaranum en mér finnst ekki vera neitt samræmi.“

Með sigrinum heldur Breiðablik sér í toppbaráttunni. Blikar eru í 4. sæti deildarinnar með 26 stig, fimm stigum á eftir toppliði FH sem vann sinn leik gegn Fjölni í kvöld. 

„Næsti leikur er á móti KR og ef við vinnum hann þá erum við í ágætri stöðu. Lykilatriðið er að einbeita okkur að því sem við erum að gera, vera með hausinn vel skrúfaðan á og safna stigum. Það eru sjö leikir eftir og hellingur af stigum í pottinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert