„Verður örugglega furðulegt“

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Golli

„Við erum búnir að fara vel yfir úkraínska liðið og okkur sjálfa. Undirbúningurinn hefur gengið vel. Það var fínt að vera í Frankfurt og við erum bara tilbúnir í þennan erfiða leik,“ sagði landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson við mbl.is í Kiev í dag.

Birkir Már verður í eldlínunni ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu á mánudagskvöldið þegar þeir mæta Úkraínumönnum í undankeppni HM í Kiev.

„Það verður örugglega mjög furðulegt að spila leik í undankeppni stórmóts á tómum velli. Það er engum í hag að það verði ekki áhorfendur á leiknum og það verður örugglega jafnt skrýtið fyrir Úkraínumennina að spila leikinn undir þessum kringumstæðum,“ sagði Birkir Már.

„Þrátt fyrir að Úkraínumönnum hafi ekki gengið vel á EM í sumar hafa þeir á að skipa mjög góðu liði. Fyrir EM náðu þeir mjög góðum úrslitum þar sem þeir skoruðu fullt af mörkum.

Óheppnin elti þá hins vegar á öllum leikjunum á EM í sumar. Það segir ekki neitt um gæði liðsins að það hafi tapað öllum leikjunum og ekki skorað mark. Nú er aðalstjarna þeirra komin í þjálfarastarfið og þeir ætla sér að byrja keppnina að krafti.“

Spurður hvort hann og liðsfélagar hans séu ekki komnir niður á jörðina eftir frábært gengi á EM sagði Birkir Már;

„Við erum auðvitað alveg í skýjunum með árangurinn í sumar en það kemur ekkert niður á okkar undirbúningi fyrir leikinn. Við erum 100% einbeittir á það sem við ætlum okkur að gera í leiknum.

Stig á útivelli er alltaf mjög gott en við förum í alla leiki til að vinna og það hefur ekkert breyst,“ sagði Birkir Már sem kemur örugglega til með að spila í hægri bakvarðarstöðunni eins og hann hefur gert svo vel undanfarin ár.

mbl.is