Toppurinn og botninn

Martin Lund og Daníel Laxdal eigast við í leiknum í …
Martin Lund og Daníel Laxdal eigast við í leiknum í Kópavogi í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er ólíkt hlutskipti grannliðanna Breiðabliks og Stjörnunnar eftir þrjár umferðir í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þetta árið. Stjarnan hafði betur í uppgjöri þeirra í Kópavogi í gær en 3:1-sigur þeirra kom Garðbæingum á toppinn með sjö stig. Það sem meira er, þá höfðu Stjörnumenn ekki unnið í Kópavogi í efstu deild í heil 23 ár, eða frá árinu 1994. Blikar eru hins vegar í alls kyns vandræðum og eru á botninum án stiga – nokkuð sem menn vilja ekki þurfa að venjast í Kópavoginum.

Sigurður Víðisson stýrði Blikum í leiknum eftir óvæntan brottrekstur Arnars Grétarssonar fyrir helgi. Hann vildi sem minnst ræða málið eftir leik og hafði að sögn ekki hugmynd um hvernig framhaldið yrði. Ekki er slík óvissa á bætandi vandamál Blika á botninum. Þrátt fyrir allt þá héldu Blikar boltanum ágætlega lengst af, en virtust oft ekki hafa hugmynd um hvað ætti við hann að gera! Ekkert bit var fram á við og þeir Hrvoje Tokic og Martin Lund hljóta að fara að verða svefnvana af markaleysi.

Miðvörðurinn Michee Efete komst vel frá sínu eftir aðeins nokkurra daga dvöl á Íslandi, þó það hafi verið hann sem fékk boltann í sig þegar vítaspyrna var dæmd. Hann er nautsterkur og liðsfélagarnir leituðu mikið til hans í vítateignum í föstum leikatriðum. Vonandi fyrir Blika kemst meiri ró á varnarlínuna með honum, en Damir Muminovic hefur aldrei haft sama manninn við hlið sér í hjarta varnarinnar í fyrstu þremur leikjunum.

Nánar er fjallað um alla leiki gærkvöldsins í Pepsi-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert