Þrjóskir Grindvíkingar náðu í stig

Davíð Kristjánsson sækir að varnarmanni Grindavíkur á Kópavogsvellinum í kvöld.
Davíð Kristjánsson sækir að varnarmanni Grindavíkur á Kópavogsvellinum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Breiðablik og Grindavík gerðu markalaust jafntefli í lokaleik níundu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Breiðablik átti 20 skot gegn fjórum og fékk 14 hornspyrnur gegn einni, en Grindvíkingum tókst að halda markinu hreinu og fá stig. 

Blikar byrjuðu leikinn mikið mun betur og sköpuðu sér ágætlega mikið af færum á fyrstu mínútunum. Breiðablik fékk níu hornspyrnur og átti níu skot í fyrri hálfleik, en Grindvíkingar fengu ekki eina einustu hornspyrnu, né náðu skoti allan hálfleikinn.

Bestu færi Blika voru skot rétt utan teigs frá Martin Lund og Hrvoje Tokic. Bæði skot þeirra voru föst og með jörðinni en Kristijan Jajalo sá við þeim báðum með virkilega góðum markvörslum. Fimm mínútum fyrir leikhlé átti Arnþór Ari Atlason svo skot innan teigs en það var beint á Jajalo sem greip boltann. Þrátt fyrir nokkra yfirburði Breiðabliks var staðan 0:0 í hálfleik.

Grindvíkingar voru töluvert þéttari á miðjunni framan af seinni hálfleik og var minna um færi hjá Breiðabliki. Heimamenn áttu sínar tilraunir, en þær voru nánast allar utan af velli og ekki á markið. Grindvíkingar fengu einnig nokkur tækifæri, en Gunnleifur Gunnleifsson hafði ekki mikið að gera í markinu. Aron Freyr Róbertsson fékk besta færi gestanna eftir tæplega klukkutíma leik þegar hann komst upp hægri vænginn eftir sendingu Sam Hewson, en skotið hans fór fram hjá. Alexander Veigar Þórarinsson fékk svo gott færi eftir langa sendingu Arons, en viðstöðulaust skot hans af stuttu færi fór naumlega fram hjá.

Undir lokin setti Breiðablik mikla pressu á Grindvíkinga. Arnþór Ari Atlason fékk besta færið á 81. mínútu, er hann dansaði fram hjá varnarmanni innan teigs og var hann nánast kominn á markteig þegar hann lét vaða, en skotið hans var fram hjá. Nær komust liðin ekki og markalaust jafntefli því staðreynd. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Breiðablik 0:0 Grindavík opna loka
90. mín. Leik lokið Þrátt fyrir að Blikar hafi verið sterkari aðilinn nær hvorugt liðið að skora.
mbl.is