Verð að sjá hvað er best fyrir mig

Ingibjörg Sigurðardóttir á æfingunni í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir á æfingunni í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Færeyjum í fyrsta leik sínum í undankeppni HM sem fram fer í Frakklandi árið 2019 á Laugardalsvelli á mánudaginn kemur. Varnarmaðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir viðurkenndi í samtali við mbl.is í dag að hún veit ekki mjög mikið um færeyska liðið, en segir íslenska liðið eiga vera sterkara.

„Ég veit ekki mikið um þetta lið en ég spilaði við Færeyjar í U19 fyrir einu eða tveimur árum. Ég held þetta sé mjög sterkt lið og þetta verður verðugt verkefni fyrir okkur. Á blaði og fyrirfram eigum við að vera með sterkara lið en við verðum að koma einbeittar inn í leikinn og gera þetta á fullu."

Ingibjörg vann sér inn sæti í byrjunarliðinu fyrir Evrópumótið í Hollandi og spilaði þar alla leiki mótsins. Hún er staðráðin í að halda sætinu og bæta sig. 

Stelpurnar á EM voru betri og ég þarf að gera betur

„Maður ætlar sér alltaf að spila og það er verkefni fyrir mig núna að standa mig vel á æfingum og bæta mig. Það er mikil samkeppni í liðinu og maður verður að standa sig. Maður setur enn meiri kröfur á sig þegar maður kemst í liðið. Ég lærði það á EM að ég verð að verða betri, stelpurnar sem ég var að spila á móti eru betri en ég og ég þarf að gera betur."

Hún segir liðið dreyma um að tryggja sér sæti á HM. 

„Það er alltaf draumurinn. Ef maður myndi fá að taka þátt í því verkefni að koma Íslandi í fyrsta sinn á HM væri geggjað."

Ingibjörg leikur með Breiðablik hér heima, en hún segist opin fyrir því að fara út í atvinnumennsku, ef gott tilboð kæmi. 

„Það hefur verið einhver áhugi. Ég skoða þetta með fjölskyldunni og fólkinu í kringum mig. Svo verð ég að sjá hvað sé best fyrir mig, hvort sem það verður að vera áfram hjá Breiðablik eða taka næsta skref. Maður vill alltaf ná lengra," sagði Ingibjörg. 

mbl.is