KSÍ verður með tvo bikara til taks

Þór/KA lyfti Íslandsmeistarabikarnum árið 2012.
Þór/KA lyfti Íslandsmeistarabikarnum árið 2012. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Knattspyrnusamband Íslands verður með tvo bikara reiðubúna í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna á fimmtudag þar sem Íslandsmeistaratitli verður fagnað annað hvort á Akureyri eða í Kópavogi.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við mbl.is í dag að hinn eiginlegi Íslandsmeistarabikar fari til Akureyrar þar sem Þór/KA er stigahærra liðið fyrir umferðina. Annar bikar verður svo til taks fyrir Breiðablik á Kópavogsvelli fari svo að Blikar fagni titlinum.

Verði Breiðablik Íslandsmeistari þá fer því aukabikarinn á loft í leikslok, en svo yrði skipt síðar þegar Íslandsmeistarabikarinn sjálfur kæmi aftur að norðan. Það ætti því ekki að spilla gleði Blika fari svo að liðið verði meistari að bikarinn sé fyrir norðan.

Þá hefur KSÍ einnig framleitt tvö sett af verðlaunapeningum fyrir umferðina og verða því gullpeningar til taks fyrir liðin bæði á Akureyri og í Kópavogi. Það sett sem ekki verður nýtt fer svo í endurvinnslu.

Gríðarleg spenna er fyrir lokaumferðina á fimmtudag. Þór/KA mætir FH á Þórsvellinum, en liðið er með tveggja stiga forskot á Blika. Breiðablik fær Grindavík í heimsókn og er með betri markatölu, svo Þór/KA verður því að vinna sinn leik ef Blikar vinna Grindavík.

Breiðablik varð Íslandsmeistari árið 2015.
Breiðablik varð Íslandsmeistari árið 2015. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is