Albert fór á kostum í öðrum sigri Íslands

Albert Guðmundsson í baráttu við mark Indónesíu.
Albert Guðmundsson í baráttu við mark Indónesíu.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu átti ekki í miklum vandræðum með Indónesíu þegar þjóðirnar áttust við í vináttulandsleik í Jakarta í dag. Lokatölur urðu 4:1 fyrir Ísland þar sem Albert Guðmundsson stal sannarlega senunni í sínum þriðja landsleik og skoraði þrennu.

Heimir Hallgrímsson gerði sex breytingar á íslenska liðinu frá 6:0-sigrinum í fyrri leiknum gegn úrvalsliði Indónesíu, en það var ljóst frá fyrstu mínútu í dag að um allt annan og sterkari andstæðing var að ræða þar sem var landslið Indónesíu.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Indónesía komst yfir á 29. mínútu eftir hræðileg mistök. Fyrirgjöf kom inn í íslenska teiginn og Rúnar Alex Rúnarsson í markinu virtist grípa boltann þægilega og engin hætta virtist á ferðum. Hann missti hins vegar boltann frá sér og gaf Ilham Udin færi á að renna honum í autt markið.

Íslenska liðið reyndi að svara fyrir þetta og það tókst með síðustu snertingu fyrri hálfleiks. Andri Rúnar Bjarnason átti þá frábæra stungusendingu inn á Albert Guðmundsson, sem hafði komið inn á sem varamaður um miðjan hálfleikinn. Albert slapp einn í gegn, fyrra skot hans var varið en hann náði að fylgja því eftir og skora sitt fyrsta landsliðsmark. Staðan 1:1 í hálfleik.

Albert átti þátt í öllum mörkunum

Albert átti svo sannarlega eftir að koma meira við sögu, en hann tók hornspyrnu á 58. mínútu. Óttar Magnús Karlsson skallaði í þverslá og þaðan barst boltinn út í teiginn til Arnórs Smárasonar sem skilaði honum í netið. Staðan orðin 2:1 fyrir Ísland.

Eftir þetta tók íslenska liðið leikinn yfir. Albert var sérstaklega ógnandi, hvort sem hann reyndi sjálfur eða reyndi að mata félaga sína með eitruðum sendingum. Á 66. mínútu tók hann á rás inn í teiginn, var þar felldur og vítaspyrna dæmd. Albert fór sjálfur á punktinn og vippaði boltanum ískaldur í hornið. Staðan 3:1 fyrir Ísland.

Albert var hins vegar ekki hættur og aðeins fimm mínútum síðar vann hann boltann á miðjunni. Hann geystist sjálfur fram, alla leið inn á teig og renndi boltanum í netið og fullkomnaði þar með þrennu sína.

Íslenska liðið hélt yfirburðunum áfram en mörkin urðu ekki fleiri og lokatölur 4:1-sigur Íslands, sem vann því leikina tvo í Indónesíu samanlagt 10:1.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Indónesía 1:4 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Öruggur sigur Íslands þar sem Albert Guðmundsson skoraði þrennu og átti þátt í því fjórða.
mbl.is

Bloggað um fréttina