Ekki að fara út bara til að fara út

Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val gegn KR fyrr …
Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val gegn KR fyrr á þessu ári. Ljósmynd/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Orri Sigurður Ómarsson mun að öllu óbreyttu vera leikmaður norska úrvalsdeildarfélagsins Sarpsborg á næstu dögum. Sarpsborg hefur samið um kaupverð við Val á varnarmanninum og mun hann halda út á næstu dögum til að gangast undir læknisskoðun og semja um kaup og kjör.

„Þetta kom upp á leiðinni heim frá Indónesíu snemma í vikunni. Þá fékk ég að vita að Sarpsborg hefði áhuga og ætlaði að gera tilboð. Eftir það gekk þetta mjög hratt fyrir sig. Valur og Sarpsborg voru fljót að semja sín á milli," sagði Orri í samtali við mbl.is í kvöld. 

Orri var næstum genginn í raðir danska félagsins Horsens fyrir áramót en að lokum gekk það ekki eftir. Hann hefur ekki áhyggjur að slíkt gerist í þessu tilviki. 

„Þetta er búið að vera skrautlegur vetur en þetta ætti að vera öruggara. Ég er ekki að fara á neina reynslu eða mæta á æfingar eða í einn leik. Ég er að mæta út til þess að klára þetta. Ég lærði það eftir þetta Horsens-dót að allt svona yrði bara klárað áður en ég kæmi út. Það er ekkert í óvissu. Þeir tóku því og við semjum um smáatriði í mínum samningi strax um helgina."

Sarpsborg hafnaði í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og leikur því í Evrópukeppni á næstkomandi leiktíð. 

„Ég er ekki að fara út bara til að fara út. Þetta er flott stökk, flottur klúbbur og flott lið. Ég er ekkert að þvinga mig út, þetta er flott næsta skref."

Ásgeir Börkur Ásgeirsson, Guðmundur Þórarinsson, Haraldur Björnsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson hafa allir leikið með Sarpsborg á síðustu árum en Orri segist ekki hafa rætt við þá. 

„Ég þekki strákana lítið sem hafa spilað með þeim. Liðið er á öðrum stað núna en þegar þeir voru hjá því. Þetta er annar pakki sem ég er að fara í að mínu mati," sagði Orri að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert