Framundan er geggjaður tími

Arnór Ingvi Traustason á Laugardalsvellinum í dag.
Arnór Ingvi Traustason á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég er orðinn þokkalega góður. Nú er kominn tími til þess að láta á reyna á æfingu. Eftir hana sjáum við til hver staðan verður,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður sænska liðsins Malmö þegar mbl.is hitti hann að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins í knattspyrnu á Laugardalsvelli skömmu fyrir hádegið í dag.

Arnór Ingvi meiddist á ökkla í kappleik fyrir rúmu hálfum mánuði. Hann segir að m.a. hafi spilað þar inn í að hann sé með gamalt beinmar í öðrum ökklanum. „Það tók sig upp þegar ég steig vitlaust í fótinn eftir að hafa fengið högg í andliti. Ég steig á þúfu á frekar ósléttum vellinum í Trelleborg eftir höggið,“ sagði Arnór Ingvi. Hann sagðist strax hafa velt því fyrir sér hvort þátttakan í HM væri í hættu af þessum sökum. „En það þýðir ekkert að vera neikvæður heldur einbeita sér að því að ná bata en vissulega skaut þetta atvik mér skelk í bringu um stund. Sem betur fer kom fljótlega í ljós að meiðslin voru ekki eins alvarlegt eins og maður ímyndaði sé fyrst á eftir þegar skrattinn var málaður á vegginn.“

Arnór Ingvi segist hafa tekið þátt í tveimur síðustu leikjum Malmö-liðsins á leiktíðinni eftir að hann varð fyrir ökklameiðslunum. „Ég hefði getað verið með í viðureigninni við Häcken um síðustu helgi þegar lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar fór fram. Þjálfari Malmö vildi ekki taka neina áhættu með því að tefla mér fram og hætta á að gera illt verra. Hann vildi að ég sparaði kraftana og færi heim til Íslands í hendurnar á landsliðsþjálfaranum og hans fólki sem ég verð að vinna með næstu vikurnar. Ég er afar ánægður með það,“ sagði Arnór Ingvi sem kann afar vel við sig í Malmö þar sem hann býr ásamt kærustu sinni.

Arnór Ingvi skrifaði undir fjögurra ára samning við Malmö. Hann hefur ekkert annað á prjónunum um þessar mundir en vera áfram hjá félaginu. „Bæði borgin og liðin er flott. Ég er nýkominn til liðsins og nú langar mig að leggja mig fram með því og vinna meistaratitilinn á næsta keppnistímabili.

Nú liggur hinsvegar fyrir næst á dagskrá að ná fullri heilsu og keyra sig í gang í fyrir HM í Rússlandi. Framundan er geggjaður tími,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu og HM-fari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert