„Væri sniðugt að hlusta á þjálfarann“

Heimir á fundinum í dag. Brosmildur eins og svo oft …
Heimir á fundinum í dag. Brosmildur eins og svo oft áður. mbl.is/Eggert

„Til að vita hvernig best sé að mæta íslenska liðinu þá gæti verið sniðugt hjá þeim (Norðmönnum) að hlusta á þjálfarann,“ sagði Heimir Hallgrímsson og brosti á blaðamannafundi á Laugardalsvellinum en á morgun mætir Ísland lærisveinum Lars Lagerbäck í norska landsliðinu. 

Heimir svaraði þar spurningu frá norskum blaðamanni um hvernig best væri fyrir Noreg að spila á móti íslenska liðinu. Heimir var einnig spurður hvort hann og Lagerbäck náð að setjast niður og spjalla. Einnig var Heimir spurður af sænskum blaðamanni eins og oft áður hvaða Svíinn hefði haft á Heimi sem þjálfara. 

„Ég mun hitta Lars eftir æfinguna í dag. Ég hef áður sagt að Lars er góður vinur en einnig lærifaðir í boltanum. Frábær fjögur ár sem ég starfaði með honum.“

Spurður um hvort hann hefði einhverjar efasemdir varðandi leik íslenska liðsins sagði ekki vera skynsamlega að úttala sig um slíkt. „Ég myndi ekki segja á blaðamannafundi ef ég væri efins um eitthvað. Það gæti reynst vopn í höndum andstæðinga okkar á HM,“ útskýrði Heimir en bætti við. „Við þurfum að spila vel til að vinna Noreg. Við erum nánast að spegla okkur því við mætum liði sem er líkt okkar. Ef menn verða ekki mótíveraðir þá er eitthvað að í okkar hópi. Við þurfum að vera beittari en Norðmenn enda erum við á leið á stórmót en þeir á leið í frí.“

Heimir fékk spurning frá Reuters um hversu mikil pressa væri á íslenska liðinu fyrir HM. „Pressan sem fylgir þessu er meiri vegna þess að HM er stærri keppni en EM. En við reynum bara að halda áfram að bæta okkur. Hvað sem gerist í Rússlandi breytir engu um það að landsliðið er á réttri leið og vill halda áfram að bæta sig. Íslensk knattspyrna mun ekki standa og falla með þremur leikjum í Rússlandi.“

Framtíð Heimis barst í tal og þar er staðan óbreytt. Heimir ætlar að fá að sjá hvernig HM fer og taka ákvörðun eftir keppnina. Ekkert hefur breyst í þeim efnum og hann vill ekki spá í sína framtíð fyrr en HM er lokið. Þá ákvörðun tók hann fyrir löngu síðan og taldi að slíkar vangaveltur gætu haft truflandi áhrif. Auk þess gæti KSÍ þá einnig tekið frammistöðuna á HM með í reikninginn þegar sambandið ákveður hver stýri landsliðinu í næstu keppni. 

Kári á fundinum í dag.
Kári á fundinum í dag. mbl.is/Eggert

„Verðum ekki eins varkárir“

Kári Árnason sat einnig fundinn sem fram fór á íslensku og ensku. Kári var beðinn um að spreyta sig á þriðja tungumálinu og svara sænskum blaðamanni á sænku en þar spilaði Kári um tíma. Ómar Smárason, markaðsstjóri KSÍ, lét ekki svipta sig fundarstjórninni og ítrekaði fyrri fyrirmæli sín um að fundurinn færi fram á ensku og íslensku. Þar við sat. 

Um áhrif Lars Lagerbäck sagði Kári: Lars lagði grunninn þegar hann tók við. Við höfum haldið áfram og byggt ofan á það. Maður verður að aðlagast nýjum aðstæðum og nú eru aðrir sem stjórna liðinu. Maður þarf að halda áfram að bæta sig og við höfum reynt það,“ sagði Kári og sagði einnig að með betri árangri landsliðsins sé meiri virðing borin fyrir íslensku landsliðsmönnunum erlendis.

„Leikmenn njóta meiri virðingar en áður á erlendum vettvangi. Tekið er eftir árangri landsliðsins og nú er borin virðing fyrir okkur erlendis. Þannig var það ekki alltaf á mínum landsliðsferli.“

Kári sagði það vera alveg skýrt að landsliðsmennirnir þurfi að mæta Norðmönnum af fullum krafti. Ekki bara vegna úrslitanna í þeim leik heldur einnig til að sanna sig fyrir stóru leikina „Ef menn eru með handbremsuna á í vináttuleikjunum þá er sú hætta fyrir hendi að þeir spili ekki á HM. Í þeim vináttuleikjum þar sem hugarfar okkar hefur ekki verið í lagi þá hefur liðið hvorki verið fugl né fiskur. Við þurfum að gera þetta eins og menn. Reynslan af undirbúningi fyrir EM í Frakklandi hjálpar núna. Og leikirnir sjálfir á EM hjálpa einnig. Við höfum oft spilað betur en í fyrstu tveimur leikjunum á EM. Þar voru menn varkárir og vildu ekki gera mistök.  Stressið var mikið en verður minna núna. Við verðum ekki eins varkárir,“ sagði Kári Árnason á blaðamannafundi í Laugardal. 

Frá blaðamannafundinum í Laugardalnum. Fundarstjórinn röggsami Ómar Smárason er lengst …
Frá blaðamannafundinum í Laugardalnum. Fundarstjórinn röggsami Ómar Smárason er lengst til vinstri. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert