Tæp ellefu ár síðan Ísland tapaði síðast

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði mark Íslands í tapleiknum fyrir ellefu ...
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði mark Íslands í tapleiknum fyrir ellefu árum en hún er nú í barneignarfríi. mbl.is/Eggert

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tapaði síðast fyrir Slóveníu í ágúst 2007 í undankeppni EM 2009 í Dravograd í Slóveníu. Þetta er eini tapleikur liðsins gegn Slóveníu í keppnisleik en leiknum lauk með 2:1 sigri heimakvenna. Margrét Lára Viðarsdóttir kom íslenska liðinu yfir strax á 4. mínútu og voru yfirburðir íslensku stelpnanna miklir í leiknum. Þeim tókst hins vegar ekki að bæta við öðru marki og reyndist það dýrt á endanum.

Slóvenar áttu tvö markskot og enduðu þau bæði í netinu. Það fyrra eftir vítaspyrnu og sigurmarkið skoruðu heimakonur úr aukaspyrnu af 40 metra færi. Síðan 2007 hafa liðin mæst fjórum sinnum og hefur Ísland haft betur í öllum leikjunum. Fyrst í júní 2008 á Laugardalsvelli þar sem Ísland vann 5:0 sigur í undankeppni EM 2009.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn á sem varamaður í 2:1 tapinu árið 2007 en hún er ekki í hópnum núna vegna meiðsla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska liðið vann svo 6:0 sigur í undankeppni EM 2017 á Športni-vellinum í Lendava og aftur 4:0 sigur í sömu undankeppni á Laugardalsvellinum í september 2016. Liðin mættust svo í fimmta sinn á Športni-vellinum í undankeppni HM 2019 í apríl á þessu ári þar sem að Ísland fór með sigur af hólmi, 2:0 þar sem þær Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Rakel Hönnudóttir skoruðu mörk íslenska liðsins.

Liðin mætast svo í sjötta sinn á Laugardalsvelli í kvöld í undankeppni HM klukkan 18 en sigur setur íslenska liðið í lykilstöðu fyrir tvo síðustu leiki undankeppninnar gegn Tékkum og Þjóðverjum. Leikirnir fara fram í september á þessu ári, á Íslandi en liðið er í öðru sæti 5. riðils með 13 stig, tveimur stigum minna en Þjóðverjar sem eru í efsta sætinu.

mbl.is