Alltaf skrítið að spila á móti ÍA

Ásgeir Marteinsson var að mæta sínum gömlu félögum í ÍA ...
Ásgeir Marteinsson var að mæta sínum gömlu félögum í ÍA í kvöld. mbl.is/Hari

„Miðað við hvernig leikurinn spilaðist, síðustu mínúturnar þá er ég svekktur að hafa ekki klárað þetta í restina,“ sagði Ásgeir Marteinsson, leikmaður HK eftir 0:0 jafntefli liðsins gegn ÍA í sjöundu umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu í dag en um sannkallaðan toppslag var að ræða enda ÍA í efsta sæti deildarinnar og HK í því öðru. 

„Við fengum góð færi í lokin til þess að klára þetta og ég er eiginlega bara hundfúll að hafa ekki unnið þennan leik. Við skorum auðvitað mark í fyrri hálfleik sem mér fannst eiga að standa. Ég veit ekki ennþá hvað dómarinn var að dæma á. Ég sá þetta ekki nægilega vel en það eina sem mér dettur í hug er að um bakhrindingu hafi verið að ræða. Þetta var ekki rangstæða og ef hann dæmdi bakhrindingu þá finnst mér það furðulegt í meira lagi.“

Ásgeir var að mæta sínum gömlu félögum en hann spilaði með Skagamönnum á árunum 2015 og 2016.

„Ég hef spilað nokkrum sinnum gegn ÍA á undanförnum árum og það er alltaf jafn skrítið en það er engu að síður alltaf gaman að mæta þeim. Það hefði ekki verið verra að vinna þá en það gekk ekki í þetta sinn. Við erum taplausir ennþá en við erum ekki að hugsa eitthvað langt fram í tímann. Við tökum bara einn leik í einu og sjáum svo til. Hvert það mun skila okkur í lok sumars verður svo bara að koma í ljóst,“ sagði Ásgeir að lokum.

mbl.is