Stjörnunni tókst að brjóta ÍBV á bak aftur

Stjörnumenn fagna sigurmarki Baldurs Sigurðssonar í kvöld.
Stjörnumenn fagna sigurmarki Baldurs Sigurðssonar í kvöld. mbl.is/Valli

Stjarnan lagði ÍBV að velli, 2:1, á Samsung-vellinum í Garðabæ í 10. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Eyjamenn skoruðu fyrsta mark kvöldsins á 17. mínútu úr frábærri skyndisókn. Fyrirliðinn Sindri Snær Magnússon átti þá góða sendingu á Shahab Zahedi á vinstri kantinum sem keyrði að marki, lék á Brynjar Gauta Guðjónsson í vörn Stjörunnar og skoraði svo með föstu skoti í fjærhornið.

Heimamenn reyndust ekki lengi að svara. Guðjón Baldvinsson lék á Halldór Pál Geirsson í marki Eyjamanna en var í of þröngu færi. Hann gaf því hælspyrnu á Þorstein Má Ragnarsson fyrir aftan sig sem þrumaði knettinum í tómt markið.

Í síðari hálfleik réðu heimamenn lögum og lofum á vellinum og þjörmuðu vel að Eyjamönnum sem vörðust vel og aftarlega. Afar umdeilt atvik átti sér svo stað á 72. mínútu þegar Sölvi Snær Fodilsson féll inn í teig en Ívar Orri Kristjánsson dómari sýndi honum gula spjaldið og taldi hann hafa dýft sér.

Á 84. mínútu tókst Stjörnunni svo loks að brjóta ísinn. Hilmar Árni Halldórsson setti boltann á nærstöngina úr hornspyrnu og Baldur Sigurðsson stýrði honum með skalla í netið.

Stjarnan skellir sér á topp deildarinnar, í það minnsta tímabundið, og er nú með 19 stig. Liðið hefur unnið fjóra leiki í röð og ekki tapaði í síðustu átta. ÍBV er áfram í 11. sæti með átta stig.

Stjarnan 2:1 ÍBV opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert