„Rigning og leiðindi gætu hjálpað okkur“

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í baráttu við Hauk Pál Sigurðsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í baráttu við Hauk Pál Sigurðsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld mun ÍBV mæta Sarpsborg í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar. Sarpsborg er sem stendur í sjötta sæti norsku úrvalsdeildarinnar og er níu stigum á eftir toppliði Brann. Með liðinu leikur einn Íslendingur, Orri Sigurður Ómarsson, sem kom til liðsins fyrir tímabilið frá Íslandsmeisturum Vals.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson spilaði á sínum tíma í mörg ár sem atvinnumaður á Norðurlöndunum. Reynsla hans og þekking mun koma sér vel í einvíginu við Sarpsborg, sérstaklega í ljósi þess að það eru ekki margir leikmenn ÍBV sem hafa tekið þátt í Evrópuleikjum áður á sínum ferli. Gunnar Heiðar sagði í samtali við blaðamann að hann þekkti liðið nokkuð vel.

„Það eru fimm leikmenn sem ég hef spilað með og þekki þá þokkalega vel. Aðstoðarþjálfarinn hjá þeim var þjálfarinn minn þegar ég var hjá Fredrikstad þannig að ég þekki týpurnar og ég held ég viti nokkurn veginn út á hvað þetta lið gengur,“ sagði Gunnar Heiðar.

Af lýsingu Gunnars Heiðars að ráða er Sarpsborg ekkert að flækja hlutina: „Þetta er ekta norskur „power“-fótbolti. Mikil hlaup. Mikil pressa og „direct football“. Ég held að þetta lýsi þeim ágætlega í stuttu máli.“

Mikilvægt fyrir okkur að nýta heimavöllinn

Að mati Gunnars Heiðars liggja möguleikar ÍBV gegn Sarpsborg fyrst og fremst í því að nýta heimavöllinn og ná góðum úrslitum á Hásteinsvelli.

„Ég held að möguleikar okkar séu hérna á heimavelli. Þeir vita ekki mikið hvað þeir eru að fara út í. Þeir eru vanir að spila á gervigrasi við toppaðstæður. Við erum hérna með Hásteinsvöll sem er auðvitað frábær staður. En það er stundum rigning og leiðindi og það er kannski eitthvað sem gæti hjálpað okkur. Tölfræðin hjá þeim er þannig að þeir vinna flestalla leikina sína á heimavelli og tapa flestum leikjum á útivelli. Ég met það svolítið þannig að þessi leikur á morgun sé okkar möguleiki í þessum bardaga,“ sagði Gunnar Heiðar.

Sjá allt viðtalið við Gunnar Heiðar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »