KSÍ kynnir Hamrén á miðvikudaginn

Erik Hamrén verður kynntur til leiks í höfuðstöðvum KSÍ á …
Erik Hamrén verður kynntur til leiks í höfuðstöðvum KSÍ á miðvikudaginn næsta. AFP

Erik Hamrén verður kynntur til leiks sem næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á miðvikudaginn næsta í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum samkvæmt öruggum heimildum mbl.is.

Fyrr í kvöld tilkynnti suðurafríska félagið Mamelodi Sundowns að Hamrén væri hættur hjá félaginu þar sem hann væri að taka við íslenska landsliðinu.

Hamrén hefur starfað í Suður-Afríku frá því í janúar á þessu ári sem yfirmaður íþróttamála hjá Mamelodi Sundowns. Hann hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá íslenska landsliðinu eftir að Heimir Hallgrímsson tilkynnti það í síðasta mánuði að hann yrði ekki áfram með landsliðið.

Hinn 61 árs gamli Hamrén þjálfaði landslið Svía á árunum 2009 til 2016 og kom Svíþjóð á tvö Evrópumót, árin 2012 og 2016. Þá gerði hann Rosenborg tvívegis að Noregsmeisturum árin 2009 og 2010 og AaB frá Álaborg að dönskum meisturum árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert