Keflvíkingar slógu met og jöfnuðu annað

Keflvíkingar hafa átt erfitt uppdráttar á yfirstandandi keppnistímabili.
Keflvíkingar hafa átt erfitt uppdráttar á yfirstandandi keppnistímabili. Ljósmynd/Víkurfréttir

Keflvíkingar settu í gær eitt met og jöfnuðu annað í efstu deild karla í knattspyrnu þegar þeir biðu lægri hlut fyrir KA í sextándu umferð Pepsi-deildar karla á heimavelli, 0:3.

Keflavík er aðeins með 4 stig eftir fyrstu sextán umferðirnar og það er nýtt met í stigasöfnun. Víkingar úr Reykjavík voru með 4 stig eftir fimmtán umferðir árið 1985 en unnu síðan leik sinn í sextándu umferðinni.

Þá er Keflavík enn án sigurs eftir sextán umferðir í deildinni. Það hefur aðeins einu sinni gerst áður að lið hafi ekki unnið neinn af fyrstu sextán leikjunum en þar áttu í hlut Haukar árið 2010. Þeir gerðu hins vegar 7 jafntefli í fyrstu sextán umferðunum. 

Haukar tóku heldur betur við sér, unnu loks í 17. umferð og innbyrtu alls fjóra sigra í síðustu sex leikjunum. Þegar upp var staðið voru þeir aðeins stigi á eftir næsta liði, náðu 20 stigum, og féllu naumlega úr deildinni.

Keflavík getur enn fengið 22 stig, með því að vinna síðustu sex leiki sína, og á því enn von um að rétta hlut sinn talsvert áður en tímabilið er á enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert