Keflavík stóð sig þvílíkt vel

Kristján Guðmundsson á hliðarlínunni í dag.
Kristján Guðmundsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, var ánægður með sigur sinna manna gegn Keflavík í dag þegar liðin áttust við í Vestmannaeyjum. Leikur Eyjamanna var þó ekkert upp á marga fiska en stigin þrjú urðu eftir í Eyjum og það er það eina sem skiptir máli.

„Við erum gríðarlega ánægðir að hafa náð að vinna leikinn, að skora svona snemma er algjört lykilatriði en svo gaf Keflavík okkur mjög erfiðan leik. Þeir stóðu sig þvílíkt vel og á endanum er þetta þvílíkt jafn leikur þar sem við náðum að skora þetta eina mark sem til þurfti.“

Eyjamenn byrjuðu leikinn af þvílíkum krafti líkt og gegn Fylki en aðalmunurinn var sá að nú náði ÍBV að skora, en það tókst þeim ekki í þjóðhátíðarleiknum.

„Í framhaldi náðum við ekki inn marki númer tvö, það voru nokkrir skallar sem fóru fram hjá eða beint á markmanninn sem hefðu mátt fara inn, sérstaklega í seinni hálfleik. Við fengum líka tækifæri í fyrri hálfleik, þau voru fín, baráttan í Keflvíkingum var okkur erfið, þeir voru á undan í flesta bolta og það var mjög erfitt að hemja þá.“

Keflvíkingar héldu meira og betur í boltann heldur en Eyjamenn og þá sérstaklega í seinni hálfleik, var það uppleggið?

„Ekkert frekar, við urðum að vera skynsamir í varnarleiknum. Mér fannst varnarleikurinn okkar ekki ganga nógu vel upp, það var vegna þess að Keflvíkingarnir voru miklu hreyfanlegri og hreyfðu boltann betur, við leyfðum þeim það. Við vorum of langt frá þeim, þeir eiga inni einn til tvo vinninga í þessari deild, það er alveg ljóst miðað við hvernig þeir voru hér. Sem betur fer kom þessi sigur ekki hér, við náðum þessu fyrsta marki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert