Hamrén tekur stórtapið á sig

Erik Hamrén var allt annað en sáttur.
Erik Hamrén var allt annað en sáttur. mbl.is/Valli

Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, var skiljanlega allt annað en sáttur eftir 6:0-tap fyrir Sviss í Þjóðadeild UEFA í dag. Hamrén stýrði íslenska liðinu í fyrsta skipti í leiknum en þurfti að sætta sig við stóran skell. Svissneska liðið var miklum mun betra og hefði ósigurinn getað verið stærri. 

„Byrjunin var allt í lagi og þeir fengu eitt færi og Hannes varði, eftir það leyfðum við þeim að spila. Ég var ekki sáttur við hvernig við eltum seinni boltann eða árásargirnina á síðasta þriðjungnum,“ sagði Hamrén í samtali við Stöð 2 sport eftir leik. Hann segir að leikurinn hafi í raun verið búinn eftir þriðja mark Sviss. 

„Þegar þeir skoruðu þriðja markið töpuðum við öllu. Við töpuðum skipulaginu, trúnni o.s.frv. Það er á mína ábyrgð sem stjóri. Mitt starf sem stjóri er að gefa þeim trú á því sem þeir eru að gera. Það er afar margt sem var ekki til staðar í dag. Fyrir mér snýst fótboltinn um að vinna einvígi í vörn og sókn. Við töpuðum of mörgum einvígjum og eftir þriðja markið töpuðum við öllu.“

Hvað sagði Hamrén við leikmenn strax eftir leik? 

„Venjulega tala ég ekki við leikmenn strax eftir leik því ég og leikmenn erum tilfinningaríkir. Ég sagði við þá í dag að þetta væri á mína ábyrgð því þetta var ekki gott,“ sagði Hamrén

mbl.is