Sara mætir á Þórsvöllinn í dag

Arna Sif Ásgrímsdóttir, lengst til vinstri á mynd, verður ekki ...
Arna Sif Ásgrímsdóttir, lengst til vinstri á mynd, verður ekki með Þór/KA í stórleiknum við Wolfsburg í dag. mbl.is/Ómar

Þór/KA verður án einnar af sínum reyndustu konum, Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur, þegar liðið tekur á móti stórliði Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu á Akureyri í dag. Arna tognaði á kálfa og þótt stutt gæti verið í að hún verði leikfær, þá liggur fyrir að miðvörðurinn nær ekki leiknum í dag.

„Nei, því miður þá er ég ekki leikfær. Ég verð á varamannabekknum en mun ekki taka þátt í leiknum. Ef vel gengur þá gæti ég verið orðin heil heilsu eftir nokkra daga en það verður bara að koma í ljós,“ útskýrði Arna þegar Morgunblaðið hafði samband við hana í gær. Síðari leikurinn við Wolfsburg ytra er á dagskrá eftir hálfan mánuð og þar gæti Arna þá mögulega komið við sögu.

Hún segir það vera mikil tíðindi að lið eins og Wolfsburg komi til landsins að spila alvöru leik en þýska liðið lék til úrslita í keppninni í sumar. 

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Leikur Þórs/KA og Wolfsburg hefst kl. 16.30 og er í beinni textalýsingu á mbl.is.