Leikmenn Fjölnis gáfu meira í þetta

Sam Hewson var svekktur í leikslok.
Sam Hewson var svekktur í leikslok. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við töpuðum þessu því leikmenn Fjölnis gáfu meira í þennan leik en við," sagði svekktur Sam Hewson, miðjumaður Grindavíkur, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap fyrir Fjölni á heimavelli í Pepsi-deildinni í fótbolta. 

„Það er ólíkt okkur að spila svona. Venjulega erum við mun ákveðnari og spilum með hjartanu. Það vantaði í dag og ég veit ekki af hverju. Við vorum með leikplan og ætluðum að ná í þrjú stig, en nokkrir leikmenn spiluðu ekki vel í dag og því fór sem fór."

Fjölnir byrjaði leikinn mikið mun betur og kom sigurmarkið strax á fjórðu mínútu. 

„Við ætluðum að setja pressu á þá strax í byrjun, en þeir byrjuðu mun betur en við. Við spiluðum vel á köflum, en það vantaði meiri orku í þetta og við áttum að vinna fleiri einvígi."

Hann segir ekki vanta sjálfstraust í lið Grindavíkur, þrátt fyrir fimm leiki í röð án sigurs. 

„Ég held ekki. Við erum að gera flotta hluti á æfingum, en við náum ekki að gera þá í leikjum. Það er erfitt að segja hvers vegna. Við verðum að laga það fyrir leikinn á Akureyri á móti KA."

„Við verðum að rífa okkur upp og vinna þá tvo leiki sem eftir eru til að enda sem efst. Tímabilið byrjaði vel, en heilt yfir er tímabilið búið að vera vonbrigði," sagði Englendingurinn. 

mbl.is