Líður best á miðsvæðinu

Birkir Bjarnason átti frábæran leik gegn Frökkum í vináttuleik í …
Birkir Bjarnason átti frábæran leik gegn Frökkum í vináttuleik í síðustu viku. AFP

Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Laugardalnum í morgun fyrir leik Íslands og Sviss í 2. riðli Þjóðadeildarinnar sem fram fer á Laugardalsvelli á morgun. 

Birkir átti mjög góðan leik á miðsvæðinu gegn Frökkum í vináttuleik í Guinga­mp á fimmtudaginn síðasta en leiknum lauk með 2:2-jafntefli þar sem heimsmeistarar Frakka voru 2:0 undir þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Birkir viðurkennir að honum líði best inn á miðri miðjunni en hann hefur spilað sem kantmaður með íslenska landsliðinu, undanfarin ár.

„Mér líður best inn á miðri miðjunni. Persónulega finnst mér skemmtilegra að spila þá stöðu og þú ert meira í boltanum þar en úti á kantinum. Mér hefur hins vegar alltaf liðið mjög vel, hvar sem ég spila, hjá landsliðinu og ég tel mig hafa leyst mín hlutverk í liðinu mjög vel.“

„Að sama skapi þá spila ég þar sem þjálfarinn biður mig um að spila og þarf á mér að halda en ég spila á miðri miðjunni með félagsliði mínu og þar líður mér best, það er ekki nokkur spurning,“ sagði Birkir á blaðamannafundi í Laugardalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert