Þrír af efnilegustu áfram með Víkingi

Bjarni Páll Runólfsson í leik með Víkingum í sumar.
Bjarni Páll Runólfsson í leik með Víkingum í sumar. mbl.is/Valgarður Gíslason

Þrír af efnilegustu leikmönnum Víkings í Reykjavík hafa framlengt samninga sína við félagið en þeir þeir Bjarni Páll Runólfsson, Logi Tómasson og Örvar Eggertsson hafa allir skrifað undir nýja tveggja ára samninga að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Víkingi.

Bjarni Páll er 22 ára miðjumaður sem kom við sögu í 18 leikjum í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar og skoraði 2 mörk. Hann spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir Víking sumarið 2014 og á alls 37 leiki að baki fyrir félagið í Íslandsmóti og bikarkeppni.

Logi Tómasson er 18 ára gamall vinstri bakvörður sem lék 3 leiki fyrir Víking í Pepsi-deildinni fyrri hluta síðasta tímabils en var lánaður til Þróttar í félagaskiptaglugganum í júlí. Hjá Þrótti spilaði hann 11 leiki í Inkasso-deildinni. Logi á að baki 2 leiki fyrir U-17 ára landslið Íslands.

Örvar Eggertsson er 19 ára framherji sem spilaði 17 leiki í deild og bikar fyrir Víking í sumar og skoraði í þeim 3 mörk. Hann á samtals að baki 28 leiki og 3 mörk fyrir félagið í Íslandsmóti og bikarkeppni. Örvar hefur leikið 2 leiki fyrir U-19 ára landslið Íslands.

„Víkingur fagnar því að hafa framlengt samninga sína við þessa efnilegu leikmenn og treystir því að þeir verði mikilvægir hlekkir í uppbyggingu félagsins til framtíðar,“ segir í fréttatilkynningu frá Víkingi.

Arnar Gunnlaugsson tók við þjálfun Víkings-liðsins eftir tímabilið í haust af Loga Ólafssyni en Arnar hefur verið aðstoðarmaður Loga.

mbl.is