Björn Daníel spilar á Íslandi næsta sumar

Björn Daníel Sverrisson í leik með FH-ingum.
Björn Daníel Sverrisson í leik með FH-ingum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Knattspyrnumaðurinn Björn Daníel Sverrisson hefur ákveðið að snúa heim úr atvinnumennskunni og ætlar að spila í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Samningur Björns Daníels við danska úrvalsdeildarliðið AGF rennur út eftir tímabilið og hefur hann ákveðið að koma heim eftir það.

„Ég er bara að skoða hvað er í boði. Ég má náttúrulega ekki semja við neitt lið fyrr en í janúar þannig að það er ekkert stress á mér. Ég veit af áhuga þriggja til fjögurra liða en ég mun fara yfir stöðuna með umboðsmanni mínum í byrjun janúar,“ sagði Björn Daníel í samtali við mbl.is í morgun en samkvæmt heimildum mbl.is vilja FH-ingar fá Björn aftur í sínar raðir og þá hafa Íslandsmeistarar Vals mikinn áhuga á að fá miðjumanninn til liðs við sig.

Björn Daníel er uppalinn FH-ingur en yfirgaf félagið eftir tímabilið 2013 þar sem hann var kjörinn leikmaður ársins og hélt út í atvinnumennsku. Hann gekk fyrst í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Viking og lék með liðinu í tvö ár áður en hann fór til AGF. Hann var í láni hjá Vejle í Danmörku í fyrra og spilaði í B-deildinni en sneri aftur til AGF fyrir þetta tímabil. Björn Daníel hefur komið við sögu í 7 af 18 leikjum AGF í deildinni en liðið er í 11. sæti af 14.

Björn Daníel er 28 ára gamall miðjumaður og á að baki 8 leiki með íslenska landsliðinu.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert