Jajalo í markið hjá KA

Kristijan Jajalo varði mark Grindavíkur í þrjú ár.
Kristijan Jajalo varði mark Grindavíkur í þrjú ár. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KA hefur ákveðið að lána Magna á Grenivík markvörð og hefur fengið til sín Bosníumanninn Kristijan Jajalo sem verður hjá KA út keppnistímabilið sem nú er að hefjast.

Jajalo endurnýjar þar með kynnin við Óla Stefán Flóventsson, þjálfara KA, en Jajalo lék undir hans stjórn hjá Grindavík síðustu þrjú ár. Hann er 26 ára gamall og lék í næstefstu deild Króatíu áður en hann kom til Grindavíkur.

KA hefur í staðinn lánað markvörðinn efnilega Aron Elí Gíslason til Magna. Þeir Aron Dagur Birnuson hafa skipst á að verja mark KA í vetur. Aron Elí spilaði 10 leiki í úrvalsdeildinni í fyrra eftir að hann tók við stöðunni af Cristian Martínez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert