HK vonandi fyrsta fórnarlambið

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

„Ég valdi HK á Twitter hjá Breiðabliki og það er til sönnun fyrir því,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir að ljóst varð að Kópavogsliðin Breiðablik og HK mætast í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta. 

Breiðablik og HK mætast í Kórnum í Pepsi Max-deildinni á morgun og mætast liðin því þrívegis í sumar. 

„Ég er farinn að taka einn leik fyrir í einu á móti þeim. Við eigum þá á morgun og þetta er skemmtilegt fyrir alla Kópavogsbúa og gjaldkerana. Ég spilaði í HK og það er fullt af flottu fólki í HK. Félagið er að gera ótrúlega flotta hluti.“

Breiðablik fór alla leið í bikarúrslit á síðasta ári, en tapaði þá fyrir Stjörnunni í vítaspyrnukeppni. 

„Við erum mjög spenntir. Við fórum í úrslitaleik í fyrra og töpuðum honum. Það var algjör martröð og við viljum gera aðeins betur en í fyrra. Þá þurfum við að fara í gegnum nokkra leiki og m.a. HK, sem verður vonandi fyrsta fórnarlambið,“ sagði Gunnleifur. 

mbl.is
Loka