Skapmenn verða að hafa stjórn á sér

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var skiljanlega fúll eftir 2:0-tap sinna manna gegn ÍA í 4. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta í kvöld. ÍA skoraði strax á þriðju mínútu og vann að lokum góðan sigur. 

„Mér fannst leikurinn fara yfir á þeirra forsendur strax í byrjun þegar þeir skora. Þeim líður vel þegar þeir geta varist og beitt skyndisóknum. Það var klaufalegt hjá okkur að setja svifbolta í hendurnar á markmanninum og þeir koma á okkur.“

Ólafur segir spilamennsku FH betri í seinni hálfleik heldur en þeim fyrri. Þrátt fyrir það tvöfaldaði ÍA forskot sitt í seinni hálfleik og Pétur Viðarsson fékk beint rautt spjald fyrir mótmæli. 

„Við spiluðum svo hægt í fyrri hálfleiknum. Við spiluðum betur í seinni hálfleik og tempóið varð betra. Þegar við förum svo að elta jöfnunarmark þá setja þeir á okkur annað og þá varð þetta erfitt, sérstaklega þegar Pétur er rekinn út af.“

Samkvæmt heimildum mbl.is fékk Pétur rautt spjald fyrir að kalla nafna sinn og dómara leiksins, Pétur Guðmundsson, þroskaheftan. 

„Hann fékk rautt spjald, það er alveg ljóst. Það hlýtur að hafa verið óafsakanlegt að mati Péturs. Það er líka óásættanlegt fyrir okkur að menn haldi ekki haus og fari að reita einhverju svona frá sér. Ég er búinn að fara yfir það með Pétri og öðum inn í klefa að skapmenn verða að hafa stjórn á sér í svona aðstæðum,“ sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert