Kemur fyrsti sigur ÍBV á Akureyri?

Gunnar Heiðar Þorvaldsson var á skotskónum síðast þegar liðin mættust …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson var á skotskónum síðast þegar liðin mættust í efstu deild. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV heimsækir KA í 6. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Greifavöll á Akureyri í dag klukkan 16:30. Bæði lið hafa farið rólega af stað í deildinni í sumar en Akureyringar eru í sjöunda sætinu með 6 stig á meðan ÍBV er án sigurs í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig. 

KA hefur unnið tvo leiki í sumar og tapað þremur. Síðasti sigurleikur liðsins kom gegn Stjörnunni í Garðabænum í síðustu umferð en í annarri umferð deildarinnar vann KA öflugan 1:0-sigur gegn Íslandsmeisturum Vals. ÍBV hefur tapað þremur leikjum í sumar og gert tvö jafntefli, gegn Grindavík og nú síðast Víkingi Reykjavík.

Tölfræðin er hliðholl ÍBV fyrir leik dagsins en í síðustu fimm leikjum liðsins hefur ÍBV fagnaði sigri í þrígang. KA hefur unnið tvívegis en á síðustu leiktíð vann KA 2:0-sigur í fyrri umferðinni þegar liðin mættust á Akureyri þar sem Elfar Árni Aðalsteinson og Ásgeir Sigurgeirsson skoruðu mörk Akureyringa.

Síðari leik liðanna í Vestmannaeyjum lauk með 2:1-sigri ÍBV þar sem Bjarni Mark Antonsson kom KA yfir á 22. mínútu en Gunnar Heiðar Þorvaldsson jafnði metin fyrir Eyjamenn, fjórum mínútum síðar, áður en Shahab Tabar tryggði ÍBV sigur með marki í upphafi síðari hálfleiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert