Aron Einar er klár en æfði ekki með liðinu

Aron Einar Gunnarsson á að vera fullfrískur.
Aron Einar Gunnarsson á að vera fullfrískur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson æfði ekki með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á Laugardalsvelli í gærmorgun, þremur dögum fyrir leikinn gegn Albaníu í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer þar á laugardag.

Aron Einar er þó ekki að glíma við meiðsli, en í stað þess að æfa á grasi með liðinu æfði hann í æfingasal. Þekkt er að Aron Einar tekur ekki alltaf þátt í öllum æfingum landsliðsins fyrir leiki og á þátttaka hans í leiknum gegn Albaníu og svo gegn Tyrklandi á þriðjudag því ekki að vera í hættu.

Þá var Birkir Már Sævarsson ekki með landsliðinu á æfingunni í gær, en hann fékk leyfi af persónulegum ástæðum. Hann er þó heill heilsu og ekki að glíma við meiðsli. Þá kemur markvörðurinn Ingvar Jónsson til móts við liðið í dag.

Kapphlaup hjá Jóhanni Berg

Enn ríkir óvissa með Jóhann Berg Guðmundsson. Jóhann kom aftur til landsins frá Dublin í gær eftir að hafa verið sendur þangað til sérfræðings sem vann með honum þegar hann meiddist í kálfa í vetur og missti úr leiki með Burnley í ensku úrvalsdeildinni.

Vonir standa til að meiðsli Jóhanns séu ekki alvarleg. Hann meiddist einnig á kálfa í fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi síðasta sumar, en var mættur aftur á völlinn í þriðja leiknum tíu dögum síðar. Ef meiðslin reynast smávægileg er hann þó samt í kapphlaupi við tímann að verða leikfær í tæka tíð.

Nánar er fjallað um íslenska landsliðið fyrir komandi leiki á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert