Mjög slæmur skellur

Frá leiknum í Vesturbænum í kvöld.
Frá leiknum í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var mjög slæmur dagur hjá okkur í dag," sagði svekkt Bojana Besic, þjálfari KR, eftir 0:4-tap fyrir Keflavík í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. Keflavík var sterkari aðilinn allan leikinn og var sigurinn verðskuldaður. 

„Það gekk ekki neitt upp í dag. Við komum ekki tilbúnar og leyfðum Keflavík að stjórna leiknum. Við leyfðum þeim að gera það sem þær eru bestar í; skyndisóknir og föst leikatriði."

Bojana hefur ekki teljandi áhyggjur af tapinu sem slíku, þótt það hafi verið með fjórum mörkum og á móti nýliðum á heimavelli. Keflavík náði í sín fyrstu stig með sigrinum. 

„Þetta er mjög slæmur skellur en við verðum að læra af þessu. Við erum nýbúnar að vinna Keflavík 1:0 í bikarnum og þetta sannar að allir geta unnið alla í þessari deild. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu og við verðum að halda áfram að vinna í okkar málum.

Svona er fótboltinn. Þetta er skemmtilegur leikur þar sem hlutirnir eru fljótir að breytast. Við erum búin að spila vel undanfarið og náð nokkrum góðum leikjum í röð en í dag var þetta slæmur dagur.

Við viljum auðvitað vera ofar en við höfum ekki áhyggjur þannig séð. Það er nóg eftir af þessu og við verðum að halda áfram að reyna að vinna," sagði Bojana Besic. 

Bojana Besic
Bojana Besic Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert