Hannes meiddur og nær brúðkaupinu

Gylfi Þór Sigurðsson fær heimsókn frá meiddum Hannesi Þór Halldórssyni …
Gylfi Þór Sigurðsson fær heimsókn frá meiddum Hannesi Þór Halldórssyni um helgina. mbl.is/Golli

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, er meiddur og verður ekki með Val í leiknum gegn ÍBV í Pepsi Max-deildinni um helgina. Hann mun nota tímann og skella sér til Ítalíu og fagna með Gylfa Þór Sigurðssyni.

Hannes stóð vaktina í marki Íslands í leikjunum við Albaníu og Tyrklandi, en það var raunar í upphitun gegn Tyrkjum sem Hannes meiddist. Um var að ræða væga tognun aftan í læri, sem var þó ekki það alvarleg að hann gæti ekki spilað landsleikinn. Síðan hefur hann þó versnað.

„Ég hafði mestar áhyggjur að ég gæti ekki klárað leikinn en það kom aldrei annað til greina en að reyna láta reyna á þetta í leiknum og sem betur fer þá slapp ég í gegnum þetta í leiknum," sagði Hannes við fotbolti.net í dag.

Þar sem Hannes er meiddur fékk hann leyfi frá Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals, til þess að fara til Ítalíu í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar og Alexöndru Helgu Ívarsdóttur. Þau verða gefin þar saman um helgina, en Hannes ætlaði upphaflega ekki að fara enda leikurinn gegn ÍBV á sunnudag. Hann býst við að vera frá í um 10 daga og því fékk hann leyfi til þess að fara út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert