Þungar áhyggjur af hagræðingu úrslita

Hægt var að veðja á leik Fylkis og Breiðabliks í …
Hægt var að veðja á leik Fylkis og Breiðabliks í úrvalsdeild karla hjá fjölmörgum veðmálasíðum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veðmál tengd knattspyrnu á Íslandi hafa færst mjög í vöxt á undanförnum árum. Í dag er hægt að veðja á alla leiki á Íslandi í efstu deild karla og kvenna, 1. deild karla og kvenna og öllum neðri deildum karla.

Fjölmargar veðmálasíður bjóða fólki að veðja á leiki og þá er einnig hægt að veðja á 2. flokk karla á helstu veðmálasíðum. KSÍ er meðvitað um þessa þróun og er sérstök áhersla lögð á það hjá sambandinu að dómarar KSÍ fylgist gaumgæfilega með öllu sem kann að teljast óeðlilegt í leikjum sem þeir dæma.

Þorvaldur Árnason milliríkjadómari staðfesti þetta í samtali við mbl.is. „Það eru allir meðvitaðir um vandamálið sem fylgir þessu en það er samt erfitt að gera sér grein fyrir stærð þess. Vissulega hefur maður heyrt af svona hlutum og ég get svo sem alveg viðurkennt að maður hefur dæmt leiki þar sem óeðlilegir hlutir hafa átt sér stað en það er erfitt að festa hendur á því hvort um raunverulegt veðmálasvindl er að ræða,“ sagði Þorvaldur.

Allir leikir í efstu deild kvenna eru á boðstólnum hjá …
Allir leikir í efstu deild kvenna eru á boðstólnum hjá erlendum veðbönkum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoðardómarar veðja á leiki

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa aðstoðardómarar í 2. flokki karla veðjað á leiki þar sem þeir hafa sjálfir verið á línunni en félögin sjá oft á sjálf um að skaffa aðstoðardómara fyrir yngriflokkaleiki sína. Í gær voru svo háværar raddir á samfélagsmiðlum um hagræðingu úrslita í leik KM og Snæfells í 4. deild karla. Snæfell komst í 5:0 í fyrri hálfleik en fékk á sig þrjú mörk í seinni hálfleik en asísk forgjöf fyrir leikinn var +2,5 á KM.

KM hefur aðeins unnið einn leik í sumar í B-riðili 4. deildarinnar, gegn Afríku sem er eitt slakasta lið deildarinnar, en Snæfell er taplaust í öðru sæti riðilsins með 13 stig líkt og Hvíti riddarinn. „Ég sá þennan leik að sjálfsögðu og persónuelega sá ég ekkert óeðlilegt í honum. Við skorum fimm mörk í fyrri hálfleik og förum svo í ákveðnar skiptingar í hálfleik og seinni hálfleik, væntanlega til þess að hvíla menn, enda leikurinn nánast unninn. Þeir skora þrjú flott mörk sem er lítið hægt að setja út á og það ber að hrósa KM fyrir það,“ sagði Páll Margeir Sveinsson, formaður knattspyrnudeildar Snæfells, í samtali við mbl.is í dag.

Veðmál í knattspyrnu hafa ekki bara færst í aukana því …
Veðmál í knattspyrnu hafa ekki bara færst í aukana því einnig er hægt að veðja á leiki í körfuknattleik og handknattleik hér á landi. mbl.is/Hari

Ekkert óeðlilegt í leiknum í gær

„Við erum með marga erlenda leikmenn í okkar liði og þetta vandamál hefur verið tengt við erlenda leikmenn á Íslandi, því miður. Við áttum góðan fund með KSÍ fyrir tímabilið þar sem farið var vel yfir allt sem tengist veðmálum og hagræðingu úrslita. KSÍ skoðaði alla þá leikmenn sem við fengum til okkar fyrir tímabilið og þar var ekkert óeðlilegt að finna. Við höfum heyrt af þessu vandamáli hér á Íslandi og þetta er alls ekki góð þróun fyrir knattspyrnuna, sagði Páll ennfremur.

Samkvæmt heimildum mbl.is gerði leikmaður Snæfells athugasemd við leik liðsins gegn KB í 1. umferð Mjólkurbikarsins þar sem honum fannst eitthvað óeðlilegt í gangi hjá sínu liði en Snæfell tapaði leiknum, 2:1. KSÍ skoðaði málið ásamt dómara leiksins, Þorvaldi Árnasyni, sem staðfesti í samtali við mbl.is að öll framkvæmd leiksins hefði verið hin eðilegasta. Því skal haldið til haga að Alfredas Skoblas, miðvörður Snæfells, sem er frá Litháen, var dæmdur í keppnisbann í heimalandi sínu fyrir hagræðingu úrslita en hann hefur leikið með Stál-úlfi og Snæfelli hér á landi.

Knattspyrnusamband Íslands hefur þungar áhyggjur af stöðu mála hér á …
Knattspyrnusamband Íslands hefur þungar áhyggjur af stöðu mála hér á landi. mbl.is/Hari

Málið ekki komið inn á borð til KSÍ

„Við vitum af þessu vandamáli í knattspyrnunni og við höfum þungar áhyggjur af stöðunni,“ sagði Klára Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við mbl.is í dag. „Við ræddum þetta síðast í síðustu viku hjá KSÍ og við höfum fundað með ÍSÍ vegna málsins og munum halda áfram að gera það. Þetta er ekki bara vandamál innan knattspyrnunnar, þetta er líka vandamál í körfunni og handboltanum en því miður erum við ekki með mannskapinn eða tækin til þess að fylgja þessu almennilega eftir eins og staðan er í dag,“ sagði Klara.

Þá ræddi mbl.is einnig við Þorvald Ingimundarson, heilindafulltrúa KSÍ, sem er staddur í Finnlandi með kvennalandsliðinu þessa stundina. Þorvaldur staðfestir að mál KM og Snæfells sé ekki komið inn á borð til KSÍ. „Við höfum ekkert heyrt en þetta getur tekið einhvern tíma að sjálfsögðu. Um leið og það er eitthvað óeðlilegt í gangi er það skoðað en það er ekkert komið inn á okkar borð að svo stöddu,“ sagði Þorvaldur.

mbl.is