Veit ekki alveg hvað gerist hjá okkur

Andri Adolphsson átti mjög góðan leik í liði Valsmanna í …
Andri Adolphsson átti mjög góðan leik í liði Valsmanna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum flottir í dag, sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Andri Adolphsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 5:1-sigur liðsins gegn ÍBV í 8. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

„Eftir að þeir jafna metin hrökkvum við í gang og náum að kveikja almennilega á spilinu okkar. Við vorum að komast aftur fyrir þá eins og við höfum verið þekktir fyrir og mér fannst við sýna okkar rétta andlit. Ég veit ekki alveg hvað gerist hjá okkur en allt í einu byrjum við að tengja einfaldar sendingar og skora nokkur mörk sem var æðislegt.“

Kristinn Freyr Sigurðsson var í byrjunarliði Valsmanna í dag og hann var duglegur að finna liðsfélaga sína og búa til opnanir fyrir þá.

„Það er frábært fyrir okkur að fá Kristin Frey aftur inn í liðið. Hann er frábær leikmaður og það vita allir sem hafa fylgst með íslenskum fótbolta á undanförnum árum. Hann tengir spilið okkar, kemur mönnum í færi og gerir aðra menn betri í kringum sig.“

Valsmenn unnu síðast deildarleik hinn 16. maí síðastliðinn og því var sigurinn afar kærkominn.

„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur. Það er langt síðan við unnum síðast en þetta gefur okkur mikið sjálfstraust inn í næstu leiki. Við æfðum vel í landsleikjahléinu og það skilaði sér í dag,“ sagði Andri í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert