„Ég bara get ekki orða bundist“

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Vals, segir að vegið hafi verið að æru hans undanfarna daga vegna frétta um meiðsli hans og brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar á Ítalíu.

Hannes meiddist í upphitun í leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM í síðustu viku og gat ekki leikið með Val gegn ÍBV síðastliðinn sunnudag. Hann fékk því leyfi til þess að fara til Ítalíu í brúðkaup Gylfa Þórs Sigurðssonar, félaga síns í landsliðinu, og Alexöndru Helgu Ívarsdóttur sem haldið var á laugardag. Fyrir það var hann harðlega gagnrýndur af sumum og því meðal annars haldið fram að hann hafi gert sér upp meiðsli til þess að komast til Ítalíu og sleppa leik.

„Ég bara get ekki orða bundist þegar ég þarf að sitja undir því að ég sé að snúa baki við liðsfélögunum, að ég sé að setja Óla Jó í erfiða stöðu, að ég sé að gera lítið úr deildinni, að ég sé að gera lítið úr félaginu mínu og að þurfa að hlusta á hlægilegar pælingar hvort Óli sé að reyna á hug minn og staðfestu til félagsins,“ sagði Hannes í viðtali við fjölmiðla eftir tap Vals fyrir KR í gærkvöldi.

Hann segir þessa umræðu vera á miklum villigötum. Yfirleitt reyndi hann að leiða hjá sér umræðu í fjölmiðlum en nú þurfi hann að svara fyrir sig. 

„Ég myndi aldrei gera mér upp meiðsli til að sleppa því að spila fótboltaleik. Ég hef alltaf sinnt mínu starfi sem fótboltamaður af 100% fagmennsku og það mun ekki breytast. Mér finnst þessi umræða hafa vegið að æru minni sem íþróttamanns og hún er óásættanleg,“ sagði Hannes meðal annars í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert