KR mikið sterkara í Kaplakrika

Tobias Thomsen skoraði sigurmark Vesturbæinga í Kaplakrika í gær.
Tobias Thomsen skoraði sigurmark Vesturbæinga í Kaplakrika í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

KR vann verðskuldaðan 2:1-sigur á FH á útivelli í 10. umferð Pepsi Max-deild karla í fótbolta í gærkvöldi. Með sigrinum fór KR aftur upp fyrir Breiðablik og í toppsætið. Frammistaða KR var heilt yfir mjög góð og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Gestirnir réðu lögum og lofum og gátu FH-ingar verið fegnir að munurinn í hálfleik var aðeins eitt mark. Spilamennska FH batnaði í seinni hálfleik, en alltaf voru KR-ingar líklegri til að taka þrjú stig með sér heim í Vesturbæinn og sú varð raunin.

Liðin eru að ganga í gegnum andstæður. KR-ingar vinna hvern leikinn á fætur öðrum en FH hefur ekki unnið deildarleik síðan 20. maí. Það sást, því KR-ingar voru með mikið sjálfstraust og spiluðu boltanum skemmtilega á milli sín. FH-ingar virkuðu hræddir. Mennirnir sem ráða í Kaplakrika hljóta að spyrja sig hvort það hafi verið mistök að ráða Ólaf Kristjánsson í staðinn fyrir Heimi Guðjónsson. Lið eru alveg hætt að óttast FH, líka á útivelli. Sumarið í fyrra var vonbrigði og nú gengur enn verr. KR er hins vegar komið til að vera í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Kaflaskiptir Blikar við toppinn

Breiðablik gat tyllt sér í toppsætið í rúman sólarhring eftir 3:1-sigur á botnliði ÍBV á laugardag. Leikurinn kórónaði svolítið sumarið hjá Eyjamönnum til þessa, því eftir að hafa verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik varð klaufagangur þeirra til þess að Blikar náðu að jafna rétt fyrir hlé sem gaf þeim blóðið á tennurnar sem þurfti til þess að útkljá dæmið.

Blikar voru langt frá því að vera sannfærandi framan af leik. Þeir voru mistækir í vörninni, undir í baráttunni á miðjunni og sóknin var bitlaus. Þegar leið á leikinn komu hins vegar tæknileg gæði leikmanna í ljós á meðan Eyjamenn reyndu að halda í baráttuna. Taflið snerist þá við, Blikarnir tóku yfir og unnu verðskuldaðan sigur.

Greinina í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert