Cuéllar farin frá Stjörnunni

Renae Cuéllar hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna.
Renae Cuéllar hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Renae Cuéllar hefur yfirgefið Stjörnuna en þetta staðfesti Kristján Guðmundsson, þjálfari liðsins, í samtali við fótbolta.net í gær. Cuéllar, sem er frá Mexíkó, samdi við félagið fyrir tímabilið og kom við sögu í sex leikjum með liðinu á tímabilinu í bæði deild og bikar.

Í þessum sex leikjum skoraði hún eitt mark en hún hefur ekki átt fast sæti í liði Stjörnunnar í undanförnum leikjum. „Renae er farin heim. Ágætisleikmaður en hún passaði ekki inn hjá okkur," sagði Kristján í samtali við fótbolta.net. 

Stjarnan byrjaði mótið vel en hefur fatast flugið í undanförnum leikjum og situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 9 stig en liðið hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum í deildinni.

mbl.is