Stjórnuðum leiknum á löngum köflum

Bojana Besic, þjálfari KR.
Bojana Besic, þjálfari KR. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Það er mjög svekkjandi að tapa þessum leik. Enn og aftur fáum við mark á okkur úr föstu leikatriði og það er það sem ræður úrslitum hér í kvöld,“ sagði Bojana Besic, þjálfari KR, eftir tapleikinn gegn Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu.

Liðin mættust á Selfossvelli þar sem heimakonur höfðu 1:0 sigur með marki frá Hólmfríði Magnúsdóttur. 

„Við stjórnuðum leiknum á löngum köflum, Selfoss átti ágætar skyndisóknir en voru samt ekki að skapa mikið. Við lágum á þeim en náðum ekki skora. Ég verð að hrósa Selfyssingum fyrir þéttan og góðan varnarleik og mikla baráttu. Við gáfum allt í þetta og vorum allan tímann inni í þessu en ef þú skorar ekki mark þá nærðu ekki að vinna,“ sagði Bojana enn fremur.

KR stillti upp nýjum framherja í byrjunarliðinu, Gloria Douglas, en hins vegar vantaði Guðmundu Brynju Óladóttur sem er meidd á hné.

„Mér fannst Gloria koma mjög flott inn í þetta og heldur því vonandi áfram í næstu leikjum. Það er leiðinlegt að hafa ekki náð að stilla Gummu upp með henni, þá værum við mjög sterkar sóknarlega. Það kemur í ljós á næstu dögum hvernig framhaldið verður hjá Gummu. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt og henni líður betur í dag.“

KR er áfram á botni deildarinnar með fjögur stig en spilamennska liðsins í dag endurspeglaði ekki stöðu liðsins á töflunni. 

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við spilum vel og náum ekki að vinna. Við þurfum að breyta því ef við ætlum að gera eitthvað í þessari deild,“ sagði Bojana að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert