Þetta er eiginlega okkar saga

Ásgeir Marteinsson úr HK og Almarr Ormarsson úr KA í …
Ásgeir Marteinsson úr HK og Almarr Ormarsson úr KA í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Elfar Árni Aðalsteinsson sóknarmaður KA sagði eftir 2:1 ósigurinn gegn HK í úrvalsdeild karla í fótbolta í Kórnum í dag að það væri saga Akureyrarliðsins að tapa leikjum á þennan hátt.

Staða KA er orðin slæm en liðið hefur sigið niður í níunda sæti eftir fjóra ósigra í röð og gæti verið komið í fallsæti þegar umferðinni lýkur annað kvöld.

„Já, það er alveg rétt, staðan hefur versnað mikið og við þurfum að fara að vinna leiki, það er alveg ljóst. Á meðan við gerum það ekki sogumst við neðar og neðar. Ef ég vissi hvert vandamálið væri værum við eflaust farnir að vinna einhverja leiki en það virðist bara vera einhvern veginn að það dettur allt inn okkar megin á meðan það er stöngin út hinum megin.

Eins og í þessum leik, þarna seint í leiknum, þá vorum við búnir að þrýsta mjög á HK-ingana, herjuðum vel á þá og markið virtist vera að koma, en þá fengum við á okkur þetta mark beint í andlitið á lokamínútunum. Þetta er eiginlega saga okkar í síðustu leikjunum. Við þurfum að fara að vinna leiki, það er engin spurning," sagði Elfar Árni við mbl.is en hann skaut sjálfur skaut yfir mark HK úr einu besta færi KA í leiknum.

Elfar Árni Aðalsteinsson.
Elfar Árni Aðalsteinsson. mbl.is/Þórir Tryggvason


Hjá KA vantaði varnarmennina Callum Williams og Hauk Heiðar Hauksson vegna meiðsla og sá þriðji, Torfi Tímoteus Gunnarsson, fór meiddur af velli í leiknum.

„Þeir Callum og Haukur eru báðir meiddir, og Torfi fór meiddur útaf núna, þannig að það er dálítið meiðslavesen hjá okkur núna og það hjálpar ekki til. Callum er eflaust frá í nokkrar vikur í viðbót en ég veit ekki nákvæmlega hver staðan er á Hauki," sagði Elfar.

Undir lok leiksins fór allt í bál og brand eftir atvik úti við hornfána. Bjarni Gunnarsson HK-ingur fékk rauða spjaldið og Steinþór Freyr Þorsteinsson KA-maður rétt á eftir.

„Þetta var frekar ljótt þarna í lokin, ég sá þetta ekki nógu vel en greinilega var þráðurinn orðinn stuttur og menn orðnir þreyttir eða eitthvað," sagði Elfar Árni Aðalsteinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert