Keflavík sendi Fylki í fallsæti

Keflavík og Fylkir eigast við.
Keflavík og Fylkir eigast við. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Keflavík er komin upp í sjöunda sæti Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta eftir 2:0-heimasigur á Fylki í kvöld. Keflavík var í fallsæti fyrir leikinn, en þangað er Fylkir nú kominn. 

Keflavík fór með verðskuldaða 1:0-forystu inn í leikhléið. Sophie Groff skoraði eina markið á 39. mínútu en hún kláraði mjög vel eftir góða sendingu Sveindísar Jane Jónsdóttur. 

Fram að því hafði Keflavík ógnað mun meira og átt nokkrar ágætar tilraunir að marki Fylkis. Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð vaktina vel í marki Fylkis og var helsta ástæða þess að munurinn var ekki meiri í hálfleik. 

Sveindís Jane fékk mjög gott færi til að tvöfalda forskot Keflavíkur í upphafi seinni hálfleiks en hún fór illa með mjög gott færi þegar boltinn barst á hana í teignum. Hún bætti upp fyrir það eftir tæplega klukkutíma leik. 

Kyra Taylor fékk sannkallað dauðafæri fyrir Fylki um 30 sekúndum fyrr en hún skallaði fram hjá þegar hún var frí inni í markteignum. Í næstu sókn stakk Sveindís nokkra varnarmenn af og negldi boltanum með tilþrifum í markið. 

Fylkiskonur reyndu hvað þær gátu að minnka muninn en Aytac Sharifova í marki Keflavíkur þurfti ekki að taka á honum stóra sínum. Keflavík er búin að vinna þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum en Fylkir hefur ekki unnið síðan í þriðju umferð. 

Keflavík 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. Stefanía Ragnarsdóttir (Fylkir) á skot sem er varið Gott skot en Sharifova gerir glæsilega í að verja þetta í horn.
mbl.is