Stjarnan áfram eftir ótrúlega dramatík

Daníel Laxdal með boltann í fyrri leik liðanna.
Daníel Laxdal með boltann í fyrri leik liðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Stjörnumenn eru komnir áfram í aðra umferð í undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta, þrátt fyrir 2:3-tap í framlengdum og dramatískum leik á útivelli gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi í síðari leik liðanna í kvöld.

Stjarnan vann fyrri leikinn 2:1 og fer því áfram með mörkum skoruðum á útivelli. Brynjar Gauti Guðjónsson tryggði Stjörnunni farseðilinn í næstu umferð með skallamarki þegar 122 mínútur voru komnar á klukkuna. 

Heimamenn byrjuðu betur og miðvörðurinn Evgeni Osipov var nálægt því að skora snemma leiks. Þorsteinn Már Ragnarsson gerði hins vegar mjög vel í að bjarga á línu eftir að Osipov skallaði að marki. 

Þorsteinn með þrjú mörk í einvíginu

Þorsteinn gat hins vegar ekki komið neinum vörnum við, frekar en aðrir leikmenn Stjörnunnar á 17. mínútu er Osipov var aftur á ferðinni með skalla eftir horn. Í þetta skiptið endaði boltinn í fjærhorninu. 

Við markið færðust heimamenn aftar á völlinn og Stjörnumenn voru fljótir að nýta sér það. Á 25. mínútu skallaði Þorsteinn Már Ragnarsson boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Hilmars Árna Halldórssonar og jafnaði metin. 

Markið var það þriðja sem Þorsteinn Már skorar í einvíginu en hann gerði bæði mörk Stjörnunnar í 2:1-sigrinum í Garðabænum í fyrri leiknum. Heimamenn voru líklegri til að komast aftur yfir undir lok hálfleiksins en Haraldur Björnsson stóð vaktina í markinu mjög vel og sá til þess að staðan var jöfn, 1:1, í hálfleik. 

Heimamenn voru sterkari framan af í seinni hálfleik og stjórnuðu leiknum. Það gekk hins vegar illa að skapa færi gegn skipulögðu liði Stjörnunnar og Haraldur var mjög öruggur í markinu.

Varamaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson hefði getað komið Stjörnunni yfir en bjargað var á línu er hann skallaði að marki um miðjan seinni hálfleik. Alex Þór Hauksson átti svo skot rétt framhjá markinu skömmu fyrir leikslok. 

Brynjar Gauti réttur maður á rettum stað

Heimamönnum tókst hins vegar að komast aftur yfir í blálokin. Miðvörðurinn Evgeni Osipov skoraði þá sitt annað mark er hann kláraði vel innan teigs eftir sókn upp vinstri kantinn. Með því tryggði hann Levadia Tallinn framlengingu, þar sem staðan samanlagt var 3:3. 

Leikmenn Levadia voru mikið sterkari í fyrri hluta framlengingarinnar og sóttu án afláts þangað til Martin Rauschenberg fékk boltann í höndina innan teigs. Dmitri Kruglov tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi. Staðan var því 3:1 í hálfleik í framlengingu. 

Það stefndi allt í að Levadia væri á leiðinni áfram, en Stjörnumenn neituðu að gefast upp. Þeir fengu tvær hornspyrnur í blálokin, Jóhann Laxdal náði skalla að marki eftir þá síðari, markmaðurinn varði, en Brynjar Gauti Guðjónsson náði frákastinu og skallaði í netið af stuttu færi og tryggði Stjörnunni ótrúlegan sigur í einvíginu. 

Levadia 3:2 Stjarnan opna loka
120. mín. Brynjar Gauti Guðjónsson (Stjarnan) skorar 3:2 - ÓTRÚLEGT!! STJARNAN ER Á LEIÐINNI ÁFRAM! Brynjar Gauti skallar í netið af stuttu færi eftir að Lepmets hafði varið frá Jóhanni Laxdal rétt á undan.
mbl.is