Fjölnir skoraði fimm - Grótta bjargaði stigi

Fjölnismennirnir Ingibergur Kort Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason.
Fjölnismennirnir Ingibergur Kort Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason. mbl.is/Hari

Fjölnir styrkti stöðu sína á toppi Inkasso-deildar karla í knattspyrnu með því að bursta Hauka á útivelli, 5:1, í 13. umferðinni í dag. Þá er Grótta áfram í öðru sæti eftir 2:2-jafntefli gegn Víkingi Ólafsvík í toppbaráttuslag.

Fjölnir hóf leik með látum á Ásvöllum en staðan var orðin 2:0 fyrir gestina strax á 6. mínútu eftir mörk frá Guðmundi Karli Guðmundssyni og Arnóri Breka Ásþórssyni.

Arnar Aðalgeirsson minnkaði muninn fyrir heimamenn á 11. mínútu en Ingibergur Kort Sigurðsson svaraði fyrir Fjölni aðeins tveimur mínútum síðar. Ingibergur bætti svo við öðru marki sínu á 50. mínútu áður en stórsigurinn var innsiglaður með sjálfsmarki eftir rúman klukkutíma leik.

Fjölnir er því á toppnum með 29 stig, fjórum stigum fyrir ofan Gróttu sem bjargaði stigi á heimavelli gegn Ólafsvíkingum. Axel Freyr Harðarson kom heimamönnum yfir strax í upphafi síðari hálfleiks en Emmanuel Eli Keke og Harley Willard sneru taflinu við fyrir gestina. Að lokum fékk Grótta vítaspyrnu í uppbótartíma og Óliver Dagur Thorlacius skoraði, lokatölur 2:2.

Þá vann Þróttur 3:2-sigur úti gegn Njarðvík í fjörugum leik. Rafael Victor skoraði tvö fyrir Þróttara og Sindri Scheving eitt en Ivan Prskalo gerði bæði mörk Njarðvíkinga. Þróttur er í 7. sæti með 17 stig en Njarðvík er í 10. sæti með tíu stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert