Óvíst hvort Ásdís nái úrslitaleiknum

Ásdís Karen fagnar marki sínu í dag.
Ásdís Karen fagnar marki sínu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Tilfinningin er geðveikt góð og þetta er mjög gaman," sagði Ásdís Karen Halldórsdóttir, leikmaður KR, í samtali við mbl.is í dag. KR hafði betur gegn Þór/KA í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í dag, 2:0.

„Mér fannst við mikið betri í seinni hálfleik. Við byrjuðum svolítið vel en duttum síðan niður seinni hluta fyrri hálfleiks. Við náðum svo að rífa okkur upp í seinni og kláruðum þetta með stæl.

Við ákváðum að róa okkur niður og spila okkar leik. Við spiluðum boltanum á milli okkar. færðum hann yfir, fram og til baka og það virkaði mjög vel," sagði Ásdís um leikinn. Jóhannes Karl Sigursteinsson stýrði KR í fyrsta skipti í dag, en hann tók við af Bojönu Besic á dögunum. 

„Það er búið að vera frekar erfitt. Auðvitað er sjokk að missa þjálfarann en við náðum að hrista okkur vel saman. Við erum með sterka karaktera í liðinu sem hafa stigið upp. Við höfum í raun allar stigið upp og gert gott úr þessu."

Óvíst er hvort Ásdís nái úrslitaleiknum, þar sem hún er í skóla í Bandaríkjunum. „Ég næ honum ekki eins og staðan er núna, en við sjáum til hvað setur. Ég reyni að redda því," sagði Ásdís. 

Hún er uppalinn KR-ingur og mætti sem stuðningsmaður síðast þegar KR náði svo langt í bikarnum. Það var árið 2011 þegar Ásdís var 11 ára. „Ég man að ég mætti í undanúrslitaleikinn með trommur. Það er það eina sem ég man eftir. Það er mjög gott að fara með KR loksins í úrslitaleikinn," sagði Ásdís, sem skoraði fyrra mark KR í leiknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert